Fara í efni
Fréttir

Flóðgáttir opnuðust – „Jákvætt áhyggjuefni!“

Óvenjuleg sjón. Planið hjá Bílasölu Hölds við Þórsstíg á Oddeyri er gjarnan fullt en þar eru nú fáeinir bílar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Óvenjulegt er um að litast við Bílasölu Hölds á Akureyri þessa dagana; aðeins örfá farartæki á stóru planinu þar sem jafnan er bíll við bíl. Innandyra eru ekki einu sinni bílar til sýnis.

Ástæðan er einföld: Vegna gríðarlegrar eftirspurnar hafa nær allir þeir bílar í eigu Hölds, sem til stóð að selja, verið leigðir út. „Auk þess hefur verið frábær sala á notuðum bílum sem við erum með í umboðssölu fyrir fólk,“ segir Steingrímur Birgisson forstjóri Bílaleigu Akureyrar og Hölds við Akureyri.net.

Sprenging í bókunum

„Það sprakk allt fyrir tveimur eða þremur vikum, þá helltust yfir okkur bókanir með stuttum fyrirvara,“ segir Steingrímur. Fyrirtækið hafði búið sig undir fyrirsjáanlegar breytingar í ferðaþjónustunni, vegna þess hve vel gengur að bólusetja við Covid 19 víða um heim, og pantaði mörg hundruð bíla. „Tafir hafa orðið á afgreiðslu vegna vandamála við framleiðslu og okkur vantar því enn um 35% af því sem við pöntuðum; okkur vantar enn 300 til 400 bíla,“ segir forstjórinn.

„Ferðaþörfin var greinilega orðin mikil, bæði hjá Íslendingum sem vilja komast út og útlendingum sem vilja koma hingað. Bandaríkjamenn standa mjög vel varðandi bólusetningar og þaðan opnuðust hreinlega flóðgáttir; gríðarlega mikið hefur verið bókað út ágúst og ég held að haustið verði mjög gott líka. Þetta hefur farið fram úr björtustu vonum og vonandi verður ekkert bakslag.“

Mjög jákvætt áhyggjuefni!

Steingrímur segir áberandi flesta ferðamenn frá Bandaríkjunum, enda hafi bólusetning gengið hlutfallslega betur þar en víðast annars staðar í heiminum. „Við höfum líka fengið töluvert mikið af bókunum frá Evrópu en meira er um að fólk þaðan verði á ferðinni í haust. Megnið af bókunum á hverjum degi undanfarið er frá Bandaríkjunum og við þurftum hreinlega að loka fyrir bókanir um tíma vegna þess að við höfðum ekki nógu marga bíla. Það er mjög jákvætt áhyggjuefni og allir á fullu að reyna að leysa það,“ segir Steingrímur.

Hann segir fyrirtækið vera með um 4.800 bíla í leigu um þessar mundir, að þeim meðtöldum sem eru í svokallaðri langtímaleigu. „Þegar mest var vorum við með um 5.400 bíla,“ segir Steingrímur. Hann reiknar með að um áramót, eftir að nýju bílarnir verða allir komnir til landsins og töluvert búið að selja af notuðum bílum, verði um 4.500 bílar í flota fyrirtækisins.

Galtómt! Planið hjá bílasölunni er nánast tómt og ekki er bílunum fyrir að fara innndyra heldur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.