Fara í efni
Fréttir

Flughált í logninu á undan storminum

Mjög hált er víða á Akureyri í morgunsárið. Myndin er tekin á bílastæði við verslunarmiðstöðina Sunnuhlíð í Glerárhverfi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Mjög hált er víða á Akureyri í morgunsárið og aðeins byrjað að blása. Á Norður­landi eystra tek­ur gul viðvör­un gildi klukk­an 14 í dag og er í gildi til klukkan tvö aðfaranótt miðviku­dags, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands. Spáð er suðvest­an stormi, 18-23 metrum á sekúndu og hviðum jafn­vel yfir 35 m/​s. „Var­huga­vert ferðaveður og fólk er hvatt til að sýna aðgát og tryggja lausa­muni,“ segir Veðurstofan. Býsna hvasst verður í mestallan dag á Akureyri, ýmist úr suðvestri eða suðri en bjart verður og hlýtt.

Tíu stiga hiti var snemma í morgun, um hádegi á hitinn að fara niður í fjórar gráður og haldast þannig fram að miðnætti. Á morgun snýst í nokkuð hvassa norðanátt og fer að snjóa, þó ekki að ráði fyrr en eftir hádegi og spáð er snjókomu og töluverðri norðanátt, 12 til 16 metrum á sekúndu, fram á föstudag. Um helgina lægir á ný og verður úrkomulaust en nokkura stiga frost.