Flestir íbúar á hverja Vínbúð á Akureyri

Í kjölfar þess að vínbúð ÁTVR flutti nýlega úr miðbæ Akureyrar og á Norðurtorg hafa skapast nokkrar umræður hjá íbúum bæjarins um málið og þá ekki síst hvort ekki væri hægt að reka tvær vínbúðir í jafn fjölmennu bæjarfélagi og Akureyri.
Akureyri.net lék forvitni á að vita hversu margar vínbúðir væru á höfuðborgarsvæðinu miðað við íbúa og er niðurstaðan sú að þar eru 17 vínbúðir sem þjónusta um 239.733 íbúa. Þetta þýðir að hver vínbúð þjónar að meðaltali um 14.102 íbúa. Reykjavík er með færri vínbúðir á hvern íbúa en höfuðborgarsvæðið í heild. Á landinu öllu eru flestir íbúar á hverja vínbúð á Akureyri, þar sem ein vínbúð þjónar um 20.000 íbúum bæjarins.
Höfuðborgarsvæðið
-
Fjöldi íbúa: 239.733 (1. janúar 2024)*
-
Fjöldi Vínbúða: 17
-
Fjöldi íbúa á hverja Vínbúð: 14.102
Reykjavík
-
Fjöldi íbúa: 136.894 (1. janúar 2024)*
-
Fjöldi Vínbúða: 8
-
Fjöldi íbúa á hverja Vínbúð: 17.112
Akureyri
-
Fjöldi íbúa: 19.847 (1. janúar 2024)*
-
Fjöldi Vínbúða: 1
-
Fjöldi íbúa á hverja Vínbúð: 19.847
*Mannfjöldatölur frá Hagstofa.is
Ný Vínbúð ÁTVR var opnuð á Norðurtorgi nyrst á Akureyri þegar þeirri gömlu í miðbænum var lokað.
Netverslanir með heimsendingu
Eins og Akureyri.net hefur áður bent á þá er einnig hægt að versla áfengi á fleiri stöðum á Akureyri en hjá ÁTVR á Norðurtorgi.
Tvær netverslanir eru nú starfandi í bænum, Ölföng og Vendo. Vendo er heildsala með áfenga drykki o.fl. sem býður fría heimsendingu fyrir póstnúmer 600, 601 og 603 ef pantað er fyrir 5000 kr. Netverslunin Ölföng er með fjölbreytt úrval áfengra drykkja og nikótínvara. Netverslunin býður upp á heimsendingu en eins geta viðskiptavinir sótt pantanir á lagerinn að Laufásgötu 9. Þá stóð til að Norðurvín myndi opna netverslun á Glerártorgi en ekkert varð úr þeim áformum.