Fara í efni
Fréttir

Fleiri rafmagnstenglar og stærra tjaldsvæði

Tjaldsvæðið við Hamra séð úr lofti sumarið 2021. Nýja tjaldsvæðið sem er í uppbyggingu núna er nyrst á svæðinu. Ljósmynd: Ágúst Óli Ólafsson

Vonir standa til þess að nýtt tjaldsvæði verði tilbúið til notkunar fyrir verslunarmannahelgi á útivistarsvæðinu Hömrum. Verið er að setja upp nýja spennistöð á svæðinu sem bætir aðgengi tjaldgesta að rafmagni til muna.

Að sögn Ásgeirs Hreiðarssonar, framkvæmdastjóra Hamra, eru nú 240 rafmagnstenglar á tjaldsvæðinu og ræður stofninn ekki við meira álag. Á nýja tjaldsvæðinu sem nú er í vinnslu við norðurenda svæðisins er því verið að setja upp nýja spennistöð, og veitir ekki af, enda mikil eftirspurn eftir rafmagni.

Þetta svæði er verið að endurvinna á Hömrum. „Við erum að prófa nýtt undirlag á það til að það ráði betur við umferð tækja s.s. húsbíla og hjólhýsa. Þetta eru plastmottur sem vex gras upp úr. Þetta er gert til að styrkja undirlagið,” segir Ásgeir. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir

„Að öllu jöfnu þá getum við vel annað hinni daglegu eftirspurn eftir tjaldstæðum. Rafmagnstenglarnir seljast hins vegar reglulega upp. Ferðamáti fólks er að breytast og við finnum fyrir óskum fólks eftir meira rafmagni,“ segir Ásgeir sem lifir í voninni um að aðstaðan verði klár fyrir verslunarmannahelgina, en þó er orðið tvísýnt um að það náist. „Það hefur aðeins gerst í örfá skipti á rúmlega 20 árum að tjaldstæðin hafi orðið uppseld hjá okkur, en það hefur þá verið á þessum stóru ferðahelgum eins og verslunarmannahelginni. Það er hins vegar oftar uppselt í rafmagn, en hér í nágrenninu eru mörg góð tjaldsvæði sem fólk getur þá leitað til, svæði eins og Vaglaskógur, Systragil, Hrafnagil, Dalvík og Grenivík,“ segir Ásgeir.

Raflínur hverfa og tjaldsvæðið stækkar

Auk áðurnefndrar stækkunar með nýju tjaldsvæði þá er gamla tjaldsvæðið einnig að stækka. Raflínur sem legið hafa yfir svæðið eru að hverfa og þá myndast pláss fyrir fleiri ferðavagna- og tjöld á svæðinu. „Þessar línur lágu og liggja yfir hluta svæðisins. Þær eru farnar af tveimur flötum og fara fyrir næsta sumar af fjórum. Það hefur verið 25 metra helgunarsvæði út frá hverri línu, svæði sem ekki hefur mátt nýta. Með brotthvarfi línanna stækkar tjaldsvæðið sem þessu nemur,“ segir Ásgeir.

Þá hafa fleiri breytingar orðið í tengslum við tjaldsvæðisins í sumar því strætó er loks farinn að ganga þangað, en nýi flugvallarstrætóinn, kemur nú þar við. „Það var mjög jákvætt skref að fá strætó hingað en um einkaframtak er að ræða. Í mínum huga er gríðarlega mikilvægt að það verði hugað að samgöngum hingað upp eftir. Það eru ekki allir sem gista hér á bílum. Íbúahverfið er vissulega alltaf að færast nær og þangað gengur strætó, en samt vantar upp á síðustu metrana. Þá þarf líka að huga betur að stígakerfi hér í kring því það er mikil umferð af hlaupandi, gangandi og hjólandi vegfarendum til og frá Kjarnaskógi og þessari umferð þarf að beina af götunni og á stíga. Við höfum bent bæjaryfirvöldum á þetta,“ segir Ásgeir.

Hamrar býður ekki upp á bókunarkerfi enda þyrfti þá að endurskipuleggja svæðið út frá því að sögn Ásgeirs. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir

Ekki lengur tjaldað við Þórunnarstrætið

Sumarið í sumar er líka það fyrsta, sem Hamrar sjá aðeins um tjaldsvæðið á Hömrum en í 24 sumur var rekstur tjaldsvæðisins við Þórunnarstræti á þeirra könnu. Tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti var lokað í sumarlok í fyrra, samkvæmt ákvörðun bæjarins sem er að taka svæðið undir annað, m.a. uppbyggingu á heilsugæslustöð. Ásgeir segist ekki hafa orðið var við mikla óánægju gesta með að ekki sé lengur boðið upp á tjaldsvæði í göngufæri við miðbæinn enda er aðstaðan á Hömrum líka mun betri en sú sem var í boði á Þórunnarstræti. „Þetta átti ekki að koma neinum á óvart, það er búið að tala um þennan flutning á tjaldsvæðinu í ein 20 ár. Hamrar eru 4 km frá bænum svo þetta er engin gífurleg fjarlægð,“ segir Ásgeir og bætir við að einhverjir hafi þó laumast inn um ólæst hlið og gist á túninu, en þangað er hins vegar ekkert að sækja. „Þjónustuhúsin sem þarna eru núna verða fjarlægð. Við erum búin að fá eitt hús hingað uppeftir og svo er unnið að því þessa dagana að taka niður girðingar í kring um svæðið . Það er hvorki vatn né rafmagn lengur á svæðinu.“

Vetrargestir á tjaldstæðinu á Hömrum en 200 gistinætur voru þar í febrúar. Svæðið er einnig mikið nýtt af gönguskíðafólki á veturna. Mynd: Jóhann Malmquist

Tjaldgestir allt árið

Á nýliðnu N1 móti gistu 1300 manns á Hömrum þegar mest var, sem var töluvert minna en á sama tíma og í fyrra. Gistinætur í júní voru 1500 færri en í júní í fyrra en aðalferðamannatími Íslendinga er alltaf í júlí svo framundan er álagstími á Hömrum. Það fer reyndar alltaf eftir veðráttunni hversu gestkvæmt er á tjaldsvæðinu enda veðrið stór þáttur í ferðalögum Íslendinga. Áhugavert er að sjá að vetrargestum tjaldsvæðisins er alltaf að fjölga en tjaldsvæðið á Hömrum er opið allt árið. Þannig voru 50 gistinætur á tjaldsvæðinu í janúar, 200 í febrúar, 1000 í mars og 2000 í apríl. Að sögn Ásgeirs eru flestir vetrargestir á ferð í litlum ferðabílum en þó slæðast tjaldgestir inn á milli.

„Bæjarbúar eru ekki að átta sig á því að hér á tjaldsvæðinu er fólk svo gott sem alla daga ársins. Okkur langar til þess að geta tekið betur á móti þessu fólki með því að bæta vetraraðstöðuna. Þá þarf eldhúsið og inniaðstaðan til að borða og þjónusta gesti t.d. með aðgengi að þvottavélum að stækka,“ segir Ásgeir og greinilegt er að það er að ýmsu að huga á tjaldsvæðinu. Þó er ekki hægt að sleppa honum án þess að spyrja út í bókunarkerfi en mörg tjaldsvæði eru farin að bjóða upp á fyrirfram bókanir.

„Við höfum hingað til ekki boðið upp á bókanir, enda þyrfti þá að endurskipuleggja svæðið út frá því. Það eru almennt mjög skiptar skoðanir á bókunarkerfum á tjaldsvæðum, það hefur bæði sína kosti og galla. Stór hluti þess að vera á ferðalagi hér á Íslandi er að elta veðrið og svona pöntunarkerfi tekur svolítið frelsið úr ferðalaginu,“ segir Ásgeir.