FKA á Norðurlandi kynnir vetrardagskrá
Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) á Norðurlandi kynnir dagskrá vetrarins á fundi næsta laugardag, 25. september, klukkan 14.00.
„Við viljum bjóða félagsmönnum að koma í DSA Dansstúdíó á Glerárgötu 28, til að hlusta, dansa, njóta og tala saman. Stjórnin og Katrín Mist Haraldsdóttir eigandi DSA taka vel á móti ykkur. Katrín ætlar að segja okkur söguna um drauminn sem varð að veruleika. Við sem mætum, tökum þátt í léttri dansæfingu og kynnumst enn betur starfseminni (sturtur eru á staðnum),“ segir í tilkynningu frá Sif Jónsdóttur, fyrir hönd stjórnar FKA Norðurlands.
Formaður stjórnar FKA Norðurlands Jóhanna Hildur Ágústsdóttir kynnir dagskrá vetrarins, og konur eru hvattar til þess að láta stjórnina vita hvað þær vilji sjá og heyra í vetur.
„Boðið verður uppá drykk og létt snarl. Hægt er á skrá sig á viðburðinn á fésbókinni, eða láta okkur vita á netfangið fka.nordurland@fka.is,“ segir tilkynningunni. „Konur eru konum bestar og vil ég hvetja ykkur til að taka með góða vinkonu,“ segir þar að endingu.