Fjórtán frá Súlum á hálendisvaktinni
Björgunarsveitafólk hefur verið talsvert í fréttum að undanförnu í tengslum við störf við gosstöðvarnar á Reykjanesi. En það eru fleiri verkefni sem fólkið okkar í björgunarsveitum vinnur í sjálfboðavinnu og oft án þess að fá mikla athygli. Störfin eru þó ekkert minna mikilvæg fyrir það. Þessa dagana eru 14 félagar úr Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, á hálendisvaktinni norðan Vatnajökuls.
Umhverfið á „skrifstofunni“ er stórbrotið og kannski ekki að undra að björgunarsveitafólk sé tilbúið að nýta hluta sumarleyfisins í hálendisgæsluna. Mynd: Súlur
Slysavarnafélagið Landsbjörg og aðildarsveitir félagsins hafa núna í allmörg ár sinnt störfum á nokkrum skilgreindum svæðum á hálendinu og komið að fjölbreytilegum verkefnum á þeim vettvangi, ýmist í slysavörnum eða leit, björgun og alls konar aðstoð. Á vef Landsbjargar segir um hálendisvaktina: „Á hverju sumri heldur fjöldi sjálfboðaliða upp á hálendið og er þar til staðar ef óhöpp eða slys verða hjá þeim fjölmörgu sem þar eiga leið um. Frá miðjun júní fram til loka ágúst má finna hópa björgunarfólks að Fjallabaki og eitthvað skemur á Sprengisandi og á svæðinu norðan Vatnajökuls. Síðustu ár hafa þúsundir útivistar- og ferðamanna notið liðsinnis hálendisvaktarinnar.“
Gott útsýni gerir vinnudaginn betri. Mynd: Súlur.
Með í hálendisvaktinni frá upphafi
Félagar frá Súlum hafa verið með í hálendisvaktinni frá upphafi og tekið 1-2 vikur á ári í gæslu á hálendinu. Þetta fólk ýtir oft og tíðum hluta af sumarleyfi sínu frá vinnu til að sinna hálendisvaktinni og einmitt núna þessa dagana eru félagar úr Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, staddir á hálendinu að sinna þessum óeigingjörnu, en mikilvægu störfum. Samkvæmt upplýsingum frá Halldóri Halldórssyni, formanni Súlna, eru félagar hans úr Súlum einmitt á vaktinni á svæðinu norðan Vatnajökuls, á Herðubreiðar-, Öskju- og Kverkfjallasvæðunum þessa vikuna, eða 16.-23. júlí, með aðsetur í Herðubreiðarlindum. Þessa vikuna eru 14 manns frá Súlum í því verkefni með þrjá björgunarsveitarbíla og tvo svokallaða Buggybíla.
Verkefni á hálendisvaktinni eru fjölbreytt og snúast oft um mannleg samskipti við ferðamenn, innlenda og erlenda. Mynd: Súlur
Vegna hálendisvaktarinnar hefur ekki komið til þess enn sem komið er að fólk frá Súlum hafi farið til verkefna við gosstöðvarnar á Reykjanesi núna í sumar, en fólk héðan var í verkefnum við Fagradalsfjall 2021 og Meradali 2022. Átta manns frá Súlum voru í tvo daga við Fagradalsfjall 2021 og níu manns í þrjá daga við Meradali 2021. Eins hafa aðgerðarstjórnendur tekið þátt í vettvangsstjórn og fjarvinnu í gosunum, að sögn Halldórs. Hann segir stefnt að brottför héðan að gosstöðvunum í næstu viku ef þörf verður fyrir hans fólk í þessari þriðju goshrinu.
Stærstur hluti hópsins frá Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, sem er þessa dagana á hálendisvaktinni norðan Vatnajökuls. Mynd: Súlur