Fjölsmiðjan: SSNE í stað Rauða krossins
Eyjafjarðardeild Rauða krossins hefur dregið sig formlega út úr starfsemi Fjölsmiðjunnar á Akureyri en Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (SSNE) koma í staðinn. Þetta kemur fram í pistli frá Rauða krossinum sem birtist á Akureyri.net í dag.
Fjölsmiðjan á Akureyri hefur starfað frá því sumarið 2007. Hún er hugsuð sem tímabundið úrræði með það að markmiði að valdefla ungt fólk sem stendur á krossgötum í lífi sínu og veita þeim þjálfun til starfa á almennum vinnumarkaði og/eða til frekara náms. Frá upphafi hafa rúmlega 400 ungmenni starfað í Fjölsmiðjunni.
Rauði krossinn var einn af stofnaðilum en í pistlinum segir að það sé afar eðlilegt ferli að hann dragi sig út „því eitt af hlutverkum félagsins er að greina hvar þörf er fyrir stuðning, hleypa af stokkunum verkefnum og sinna þeim þar til aðrir geta eða vilja taka við þeim.“
Smellið hér til að lesta pistilinn