Fjölbreytt upplifun í Iðunni mathöll
Nú er orðið ljóst hvaða veitingastaðir verða til húsa í mathöllinni á Glerártorgi sem verður opnuð innan skamms. Aðstandendur lofa áhugaverðri og fjölbreyttri upplifun á sex veitingastöðum.
„Við erum komnir með öflugan og frambærilegan hóp fagmanna til að opna veitingastaðina í Iðunni mathöll. Um er að ræða sex rekstraraðila sem leggja sitt af mörkum til þess að mæta þörfum og löngunum bæjarbúa, eftir bestu getu,“ segja þeir Guðmundur Pétursson og Aron Lárusson, rekstraraðilar mathallarinnar. Búið er að ganga frá samningum við alla, framkvæmdir við húsnæðið er á lokametrunum og er stefnt að því að allt verði klárt fyrir opnun í september. „Markmiðið er ađ koma inn með skemmtilega og spennandi nýjung í veitingaflóruna fyrir norðan, þar sem „matur, drykkur, líf og fjör“ á kannski best við,” segja þeir Guðmundur og Aron.
Framkvæmdir standa nú yfir í Iðunni mathöll á Glerártorgi, en brátt verður rýmið fullt af spennandi veitingastöðum. Mathöllin er í norðausturhluta verslunarmiðstöðvarinnar.
Franskt bistro, sushi, smörrebröd og fleira
Eftirtaldir staðir verða í Iðunni mathöllinni: La Cuisine, sem er franskt bistro, Fuego Taqueria, sem býður upp á mexíkanskan mat, Retro Chicken, sem verður með kjúkling og hamborgara á sínum matseðli og Pizza Popolare, sem eins og nafnið gefur til kynna býður upp á pitsur. Þá verður einnig sushistaður í mathöllinni sem enn hefur ekki fengið nafn sem og kaffihús og bar sem líka er enn nafnlaus. Sá staður mun selja kaffi, kökur og smörrebröd á daginn og drykki á kvöldin. Það er því ljóst að úrvalið í mathöllinni verður fjölbreytt og ættu því allir að geta fundið þar eitthvað við sitt hæfi bæði í mat og drykk.
Haf studio hefur hannað marga flotta veitingastaði. Við hönnun mathallarinnar á Glerártorgi spilar matarupplifun og umhverfi saman.
Töff hönnun
Það er HAF studio sem sér um að hanna bæði mathöllina og veitingastaðina. Að sögn þeirra Guðmundar og Arons er upplifun viðskiptavinarins sett í algjöran forgang í hönnuninni með það í huga ađ kalla fram ánægjustundir og notalegt umhverfi. „Veitingastaðirnir fá því ađ halda í sín karaktereinkenni en á sama tíma rímar framsetning þeirra við umgjörð hallarinnar,” segja þeir félagar,spenntir fyrir lokasprettinum, en þeir halda ekki aðeins utan um rekstur mathallarinnar fyrir Fasteignafélagið Eik heldur eiga þeir og reka einn af veitingastöðunum sex sem verða í mathöllinni, Pizza Popolare.
Aron og Guðmundur, rekstararaðilar mathallarinnar á Glerártorgi og eigendur Pizza Popolare.