Fara í efni
Fréttir

Fjölbreytileg verkefni vélstjórnarnema kynnt

Glussaknúin vinda til að ná upp girðingum. Mynd af heimasíðu VMA.

Vélstjórnarnemar við Verkmenntaskólann á Akureyri kynntu brautskráningarverkefni sín í Gryfjunni í VMA á mánudaginn og kenndi þar ýmissa grasa. Kynningarnar má nú finna á YouTube-rás skólans, þökk sé Hilmari Friðjónssyni, kennara við skólann, sem tók kynningarar upp og hefur nú sett upptökurnar á YouTube. 

Verkefnin sem kynnt voru á mánudaginn voru alls konar og af ólíkum toga, allt frá búnaði og tækni í tengslum við fiskvinnslu yfir í breytingu á bílum og glussaknúna vindu til að ná upp girðingum, svo einhver séu nefnd. Kynningarnar eru misjafnlega langar, 5-12 mínútur, en hver kynning er sjálfstætt myndband á YouTube-rásinni. Sjón er sögu ríkari, en tenglar á kynningarnar má finna í frétt á vef VMA.