Fara í efni
Fréttir

Fjárhagsaðstoð jafn mikil og allt síðasta ár

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Hjálparsamtök á Eyjafjarðarsvæðinu hafa veitt fólki jafn mikla fjárhagsaðstoð nú þegar árið er hálfnað og allt síðasta ár. Þörfin hefur aukist mikið að sögn þeirra sem að aðstoðinni standa.

Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn á Akureyri, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og Rauði krossinn við Eyjafjörð hafa frá árinu 2013 haft samstarf um jólaaðstoð til einstaklinga og fjölskyldna sem á þurfa að halda á Eyjarfjarðarsvæðinu. Þörf fyrir slíka aðstoð jókst um þriðjung milli áranna 2020 og 2021 þrátt fyrir að fyrir jólin 2020 hafi borist metfjöldi umsókna um stuðning.

Vegna aukinnar þarfar stofnuðu félögin formlegan samstarfsvettvang, Velferðarsjóð Eyjafjarðarsvæðis, sem hefur það markmið að starfa allt árið og safna fjármunum sem varið er til stuðnings við einstaklinga og fjölskyldur sem á þurfa að halda árið um kring.

Eins og áður sér Mæðrastyrksnefnd Akureyrar um úthlutanir en vænst er að með þessum samstarfsvettvangi verði hægt að standa straum af auknum útgjöldum vegna vaxandi þarfar sem að mestu leyti er til komin vegna hækkandi húsaleigu, bensín- og matvöruverði, að því er segir í tilkynningu frá Velferðarsjóðnum. „Þetta er fólk sem þarf að draga fram lífið á örorkubótum eða fjárhagsaðstoð síns sveitarfélags og það er ljóst að sá stuðningur nægir mörgum ekki til að standa straum af eðlilegum útgjöldum,“ segir Sigríður M. Jóhannsdóttir sem er formaður Velferðarsjóðs Eyjafjarðar og bætir því við að mikilvægt sé fyrir sveitarfélög að huga að aðstæðum þessa hóps og því hvaða áhrif verðlagshækkanir hafi á þau sem ekki mega við auknum útgjöldum.

Fyrirtækjum, félagasamtökum, einstaklingum og öðrum sem vilja styrkja Velferðarsjóð Eyjafjarðarsvæðis er bent á að hafa samband við Eydísi Ösp Eyþórsdóttir í síma 865-4721 eða netfangið jolaadstod@gmail.com eða leggja beint inn á reikning númer: 0302-13-175063 kennitala: 460577-0209

Athugið - upphaflega birtist röng kennitala en þetta er sú rétta.