Fara í efni
Fréttir

Fjallkonan – nýju lyftunni gefið nafn

Ljósmynd: Óskar Wild Ingólfsson

Nýja stólalyftan í Hlíðarfjalli, sem tekin var í notkun á dögunum eftir langa bið, verður kölluð Fjallkonan. Frá þessu segir á vef Akureyrarbæjar í dag.

„Fyrsta skóflustungan að nýrri stólalyftu í Hlíðarfjalli var tekin á Andrésar Andar leikunum árið 2018 og langþráð gangsetning hennar varð svo í vetur, gestum skíðasvæðisins til ómældrar gleði,“ segir þar.

„Nú þegar loksins má halda Andrésarleikana á ný eftir tveggja ára hlé hefur verið ákveðið að nýja lyftan hljóti nafnið Fjallkonan. Nafnið er þannig til komið að lyftan liggur upp á hæð sem kölluð hefur verið Fjallkonuhæð og að baki hennar er Fjallkonuskál undir Hlíðarfjallsbrúninni. Að auki er fjallkonan tákn Íslands og íslenskrar náttúru og nýja lyftan gerir gestum kleift að njóta útsýnis og fegurðar hennar en á björtum dögum er mjög víðsýnt úr fjallinu og auðveldlega má sjá til Herðubreiðar í austri. Fyrir marga þá sem af ýmsum ástæðum eiga erfitt með að ganga á fjöll opna stólalyfturnar saman leið til að njóta náttúrunnar og þess frelsis og sérstöku upplifunar sem í fjallgöngum felast.“

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir í tilefni af nafngiftinni: „Það er afar ánægjulegt að ljúka fyrsta vetrinum sem nýja lyftan er í rekstri á að gefa henni þetta fallega nafn. Við þökkum öllum fyrirtækjunum á Akureyri sem komu að verkefninu og Vinum Hlíðarfjalls fyrir óeigingjarnt framlag og frumkvæði sem varð til þess að Fjallkonan varð að veruleika. Á leiðinni höfum við tekist á við ýmsar áskoranir en saman höfum við sigrast á þeim. Nýja lyftan hefur þegar sannað gildi sitt, svæðið ber nú mun fleiri gesti og fjölbreytileiki í notkun þess hefur aukist til muna. Við sjáum ekki enn fyrir endann á möguleikunum sem í því felast."

Í tilefni tímamótanna og nýja nafnsins verður frítt í Hlíðarfjall kl. 13 – 16 á morgun laugardag og þá geta þeir sem enn eiga eftir að prófa brugðið sér nokkrar ferðir upp undir brún og aðrir skotist lokaferðir vetrarins.

„Þá verður gestum og gangandi boðið upp á grillaðar pylsur á Skaflinum við Skíðastaði milli kl. 13 og 14 á meðan birgðir endast. Allir eru hjartanlega velkomnir,“ segir í tilkynningu frá bænum.