Fara í efni
Fréttir

Fjallaskíðamaður með þyrlu á sjúkrahús

Leitarmenn að störfum í dag. Mynd af Facebook síðu lögreglunnar.

Erlendur ferðamaður var sóttur með þyrlu í fjalllendið skammt frá Ólafsfirði í dag og fluttur á sjúkrahús. Hann fór frá Vermundarstöðum í morgun á fjallaskíðum og hugðist renna sér niður en þegar maðurinn hafði ekki skilað sér á áætluðum tíma var haft samband við Neyðarlínuna og leit hófst. Akureyri.net veit ekki hvort maðurinn er mikið slasaður.

Björgunarsveitir á svæðinu leituðu mannsins ásamt sjúkraflutningamönnum og lögreglu og fannst hann ofarlega í fjalllendinu. Aðstæður eru þannig að ákveðið var að kalla út þyrlu. „Aðstæður á vettvangi voru erfiðar en mjög bratt er á svæðinu þar sem að maðurinn fannst. Veðurskilyrði voru góð og gekk vel að koma manninum upp í þyrluna. Aðgerðarstjórn á Norðurlandi eystra þakkar þeim sem komu að viðkomandi aðgerð,“ segir á Facebook síðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.