Fimm flott tækifæri í ferðaþjónustu
Á fasteignavefnum má nú finna nokkur áhugaverð tækifæri í ferðaþjónustu geiranum á Norðurlandi. Þeir sem hafa áhuga á því að fara út í gistihúsarekstur á Norðurlandi á nýju ári hafa því úr nokkrum bitum að velja.
Akureyri.net renndi yfir fasteignaauglýsingar á netinu og tók saman helstu ferðaþjónustutækifærin sem í boði eru á um þessar mundir á Norðurlandi-eystra.
Öngulstaðir III í Eyjafirði v - Gistiheimili og veitingastaður
Á Öngulsstöðum hefur veitingastaðurinn Lamb-Inn verið rekinn en veitingastaðurinn tekur um 70 manns í sæti.
Á Öngulstöðum III í Eyjafirði hefur verið rekin ferðaþjónusta síðan 1993. Eignin samanstendur af gistiheimili með 18 herbergjum með samtals 42 rúmum. Þar er verönd með heitum potti og veitingastaður sem tekur allt að 70 manns. Þá fylgir eigninni fjölnota rými sem býður upp á ýmsa möguleika, óeinangruð hlaða, fjárhús og rúmgóð geymsla. Í auglýsingu frá fasteignasölunni Stofunni segir að staðurinn bjóði upp á margvíslega tekjumöguleikar fyrir duglegt og útsjónarsamt fólk sem vill skapa sér framtíð í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Ásett verð er 249.000.000. Nánari upplýsingar hér: https://fasteignir.visir.is/property/541997
Hugguleg sveitarómantík á Öngulstöðum í Eyjafirði.
_ _ _
Hallandsnes er staðsett beint á móti Akureyri. Hægt er að njóta útsýnisins út á Pollinn úr heitum potti.
Hallandsnes, gegnt Akureyri - Orlofsíbúðir með frábæru útsýni
Eignin Hallandsnes er staðsett á fallegum stað í Vaðlaheiðinni en þaðan er gott útsýni yfir Pollinn og inn og út fjörðinn. Á landareigninni, sem er 2560 fm eignarlóð, er að finna tvær byggingar, annars vegar gamalt einbýlishús sem er 112 fm að stærð og hinsvegar byggingu frá 2012 með fjórum íbúðum en hver íbúð er í kringum 70 fm. Samkvæmt byggingarskilmálum má byggja allt að 1.000 fm. hús á lóðinni og mesta hæð má vera 8 m. Búið er að fá samþykki fyrir annarri hæð ofan á áfanga 1, og öll byggingargjöld hafa verið greidd af þeim áfanga (áfangi 2). Samþykki er fyrir framhúsi (áfangi 3), sem skal vera á lóðamörkum að vestan. Í auglýsingu frá fasteignasölunni Eignaveri segir að um sé að ræða einstakt uppbyggingartækifæri með metnaðarfullum teikningum. Ásett verð er 200.000.000 Nánari upplýsingar má fá hér: https://fasteignir.visir.is/property/540351
Tvær byggingar tilheyra Hallandssnesi. Annars vegar gamalt einbýlishús, og hinsvegar bygging með fjórum orlofsíbúðum. Teikningar eru til að frekari uppbyggingu á svæðinu og gæti framtíðarhúsnæði á lóðinni litið svona út.
_ _ _
Hótel Dalvík er staðsett á besta stað í bænum. Auglýst er eftir tilboðum í eignina.
Hótel Dalvík - 33 herbergi og fleiri í vinnslu
Hótel Dalvík er til sölu og er auglýst eftir tilboðum í eignina. Hótelið sem er staðsett á besta stað í bænum, aðeins í þriggja mínútu fjarlægð frá sjávarsíðunni og 600 m frá sundlauginni. Samkvæmt upplýsingum Fasteignasölu Akureyrar eru samtals 33 herbergi til útleigu á hótelinu og verður þeim fjölgað um sex í kjallara eftir breytingar, sem ættu að vera gengnar í gegn fyrir sumarið 2024. Þá eru í kjallaranum fjögur starfsmannaherbergi með sameiginlegu baði og eldunaraðstaða. Óskað er eftir tilboðum í eignina. Nánari upplýsingar má fá hér: https://www.mbl.is/fasteignir/fasteign/1184393/
_ _ _
Tungulending er skemmtilega hannað hótel, staðsett alveg við sjávarsíðuna skammt frá Húsavík.
Tungulending - hótel á einstökum stað á Tjörnesi
Tungulending er hótel og veitingastaður örstutt frá Húsavík. Húsnæðið, sem var áður verbúð fyrir bændur á Tjörnesi sem stunduðu sjóróðra meðfram búskap, var allt tekið í gegn fyrir nokkrum árum og breytt í hótel með níu svefnherbergjum. Beint fyrir framan húsið er lítil bryggja sem gengur út á Skjálfandaflóa. Í auglýsingu frá Eignaveri segir að staðsetningin sé einstök, enda er húsnæðið alveg niður við sjávarsíðuna með útsýni út á Skjálfandaflóa, yfir til Kinnarfjalla. Hótelið sjálft er 222,7 fm. og geymsluhúsið 23,1 fm. Lóðarleigusamningur frá árinu 2022 og gildir til 60 ára, lóðin er 5.600. fm. Ásett verð er 130.000.000 kr. Nánari upplýsingar ná fá hér: https://fasteignir.visir.is/property/545898
Tungulending á Tjörnesi var einu sinni verbúð en var breytt í hótel fyrir nokkrum árum af framtakssömum Þjóðverja sem flutti til Íslands.
_ _ _
Leitað er eftir áhugasömum leigutaka sem er til í að taka að sér reksturinn á Húsabakka guesthouse í Svarfaðardal.
Húsabakki í Svarfaðardal - hótelrekstur til leigu
Húsabakki guesthouse, sem er í fimm mínútna akstursfjarlægð frá Dalvík, er nú til leigu. Um er að ræða tvær byggingar með samtals 30 herbergjum með 70 rúmum auk svefnpokagistingar. Í fasteignaauglýsingu frá Valhöll er sagt að það sé möguleiki á að auka við gistirými og að hýsa allt að 140 gesti í rúmum á staðnum. Einnig er hægt að bjóða stærri hópum íþróttasal. Þar segir að um sé að ræða frábært tækifæri til að byggja upp spennandi ferðaþjónustu í glæsilegu umhverfi Tröllaskaga. Nánari upplýsingar má fá hér: https://www.mbl.is/fasteignir/fasteign/1186454/
Úr matsalnum á Húsabakka.