Dýrustu fermetrarnir í Gilja- og Naustahverfi

Dýrustu fermetrar íbúðarhúsnæðis á Akureyri á síðasta ári voru annars vegar í Giljahverfi í sérbýlum og í Naustahverfi í fjölbýlum. Ódýrustu sérbýlin voru seld á Neðri Brekkunni, Eyrinni og í Innbænum en ódýrustu fjölbýlin á Efri Brekkunni.
Þetta kemur í ljós þegar rýnt er í meðal fermetratölur fyrir síðasta ár á verðsjá fasteigna hjá Þjóðskrá en upplýsingar þar eru frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Valin voru fimm svæði innan Akureyrar skv. valmöguleikum á verðsjánni: Glerárhverfi, Efri Brekka, Giljahverfi, Naustahverfi og Neðri Brekka, Eyri, Innbær og tímabilið 1. janúar 2024 - 1. janúar 2025 skoðað.
- Það kann að koma Akureyringum spánskt fyrir sjónir að Giljahverfi sé eitt matssvæði og Glerárhverfi annað, þar sem það fyrrnefnda er sannarlega hluti þess síðarnefnda. Það sem nefnt er Glerárhverfi í umfjölluninni er sem sagt öll byggðin norðan Glerár, að Giljahverfi undanskildu. Nánari útskýringu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar má sjá neðst í fréttinni.
Sala á sérbýlum byggð á árunum 1910-2025, 30-400m2 að stærð. Niðurstöðurnar eru fyrir tímabilið 1. janúar 2024 til 1. janúar 2025.. Skjáskot af verdsja.fasteignaskra.is
Ódýrustu sérbýlin á Neðri Brekku, Eyri og Innbæ
Samkvæmt upplýsingum úr verðsjánni var meðalkaupverð á sérbýlum á Akureyri á umræddu tímabili rúmlega 84 og hálf milljón króna, 84.646.845 kr. Meðalfermetraverð var 545.255 kr og meðalstærð seldra eigna var 155,2 m2. Niðurstöðurnar eru byggðar á 206 kaupsamningum innan þéttbýlis. Flest sérbýlin seldust á Efri Brekkunni, eða 65 en Glerárhverfi fylgir þar á eftir en þar seldust 62 sérbýli. Lægsta fermetraverðið á sérbýlum svæð var á Neðri Brekkunni, Eyrinni og Innbænum, 503.333 kr., en Glerárhverfi fylgdi þar á eftir með meðalfermetraverð upp á 508.420 kr.
Niðurstöður fyrir fjölbýli byggð á árunum 1910-2025, á bilinu 30-400m2 . Niðurstöðurnar eru fyrir tímabilið 1. janúar 2024 til 1. janúar 2025.. Skjáskot af verdsja.fasteignaskra.is
Dýrustu íbúðirnar í Naustahverf
Ef fjölbýli eru skoðuð þá seldust flestar íbúðir í fjölbýlishúsum í Naustahverfi eða 141, en í því hverfi er jafnframt meðalfermetraverðið dýrast eða 678.631 kr. Glerárhverfi er í öðru sæti, bæði hvað varðar fjölda seldra íbúða í fjölbýli og verð, en þar voru gerðir 129 kaupsamningar en meðalfermetraverð í því hverfi var 602.083 k. Meðalkaupverð á íbúðum í fjölbýli á Akureyri var annars 52.978.917 kr. á umræddu tímabili. Meðalfermetraverð er 605.642 kr. og meðalstærð var 87,5 m2. Niðurstöðurnar eru byggðar á 471 kaupsamningum.
- ATH: Gögn í verðsjá fasteigna byggja á þinglýstum samningum. Meðaltal fermetraverðs segir ekki endilega rétt til um verðþróun fasteigna í heild sinni þar sem frekari greiningar er þörf við slíkt mat.
- „Tilgangur matssvæða er að reyna eftir fremsta megni að ná utan um áhrif staðsetningar á fasteignamat. Matssvæðin eru því ekki eiginleg hverfaskipting ...“ segir í svari Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar við spurningu Akureyri.net um hvers vegna bæði sé fjallað um Giljahverfi annars vegar og Glerárhverfi hins vegar.
- Giljahverfi er það nýjasta norðan Glerár og fermetraverð hærra þar en annars staðar. Þess vegna er skiptingin eins og raun ber vitni, og með Glerárhverfi er átt við alla byggðina norðan Glerár, að Giljahverfi undanskildu.