Fangaflutningar á kostnað lögreglunnar
Frá því var sagt í fréttum um helgina að frá því að fangelsinu á Akureyri var lokað hafi fangar verið fluttir í 34 skipti frá Akureyri í fangelsið á Hólmsheiði, ýmist akandi eða fljúgandi. Kostnaður vegna þessara flutninga er um sjö milljónir króna.
Þegar fangelsinu á Akureyri var lokað var upplýst af Fangelsismálastofnun að fimm fastráðnum fangavörðum yrði boðið starf í öðrum fangelsum. Í svari Hafdísar Guðmundsdóttur skrifstofustjóra við fyrirspurn frá Akureyri.net kemur fram að einn af þessum fimm hafi tekið því boði.
Lokun fangelsisins var ákveðin út frá sparnaðarsjónarmiðum, en rekstrarkostnaður fangelsisins var á bilinu 89-99 milljónir króna á ári síðustu þrjú ár sem fangelsið var starfrækt sem slíkt, árin 2017-2019, að því er fram kemur í svari stofnunarinnar. Akureyri.net hefur þó ekki upplýsingar um kostnað vegna gæsluvarðhalds eða afplánunar fanga í fangelsinu á Hólmsheiði sem annars hefðu dvalið á Akureyri, og þar með hvort sparnaður hefur náðst með lokuninni og þá hve mikill.
Kostnaður við flutninga fanga á tæpum þremur árum eftir að fangelsinu á Akureyri var lokað var sjö milljónir króna og komu þær upplýsingar fram í svari Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn þingmanns. Þessi kostnaður fellur á lögregluembættið.