Fagna hálfrar aldar afmæli Hölds í ár
Hálf öld er síðan bræðurnir Skúli, Vilhelm og Birgir Ágústssynir stofnuðu Höld hf. á Akureyri og þeim tímamótum verður fagnað á ýmsan hátt út árið. Höldur - Bílaleiga Akureyrar er langstærsta bílaleigu landsins.
Fyrirtækið var stofnað 1. apríl 1974 en þrátt fyrir dagsetninguna var aldeilis ekki um neitt gabb að ræða; Höldur óx og dafnaði, Kennedy bræðurnir, eins og þeir voru gjarnan kallaðir, ráku félagið með glæsibrag í tæpa þrjá áratugi en seldu árið 2003. Kaupendur og stærstu eigendur enn í dag eru Steingrímur Birgisson forstjóri, tengdasonur Vilhelms, Baldvin, sonur Birgis, og Bergþór Karlsson, framkvæmdastjóri Bílaleigu Akureyrar. Síðan þá hefur velgengnin haldið áfram og félagið margfaldast að stærð.
Skúli keypti fimm bíla ...
Upphafið að rekstrinum má rekja mun lengra aftur í tímann, eða til ársins 1966 þegar Skúli keypti sér fimm bíla og hóf að leigja þá út. Það er rifjað upp á heimasíðu fyrirtækisins, þar sem segir:
Ári seinna keyptu bræður hans þeir Birgir og Vilhelm sína þrjá bílana hvor og voru þeir bræður þá komnir með 11 bíla í leigu sumarið 1967 og yfirtóku þá bílaleiguna Prinz á Akureyri. Smám saman stækkaði flotinn og árið 1970 voru bílarnir orðnir um 20. Það ár keyptu þeir Ísbúðina, lítinn söluturn við Kaupvangsstræti, og byggðu verkstæðisskúr við Kaldbaksgötu til að gera við bílana. Á þessum árum voru bræðurnir allir í fastri vinnu annarsstaðar og rekstur bílaleigunnar var aukavinna.
Stofnendur Hölds ásamt bræðrum sínum og föður fyrir utan bílaverkstæðið þegar það var við Fjölnisgötu 1. Frá vinstri: Ágúst Georg Steinsson, Vilhelm, Eyjólfur, Skúli, Baldur og Birgir.
Þegar Höldur var stofnaður tók fyrirtækið yfir allan þann rekstur sem bræðurnir voru búnir að koma sér í. Á vef félagsins segir:
Við stofnun fyrirtækisins voru bílaleigubílarnir orðnir 40 og starfsmenn þess hátt í 40. Árið 1976 keypti Höldur litla flugvél til að flytja viðgerðarmenn á þá staði þar sem bílar áttu til að bila, og var það fyrsti vísir að flugrekstri fyrirtækisins. Ári síðar, eða 1. apríl 1977 opnaði svo útibú bílaleigunnar í Reykjavík og sá Baldur elsti bróðirinn um rekstur þar allt fram til ársins 2003. Í kjölfarið fylgdu útibú víða um land.
Næstu árin og áratugina óx fyrirtækinu fiskur um hrygg. Bílafloti fyrirtækisins stækkaði jafnt og þétt, auk þess sem fyrirtækið kom að ýmiskonar rekstri og má þar nefna rekstur flugfélags, veitingastaða, verslana og veganesta svo eitthvað sé nefnt.
Steingrímur Birgisson forstjóri Hölds ásamt nokkrum starfsmanna félagsins í dag. Frá vinstri: Arna Hrönn Skúladóttir markaðsstjóri, Guðmundur Guðmundsson sem starfar á innheimtusviði, Steingrímur Birgisson, Steingrímur Hannesson, skrifstofustjóri, og Vilhelm Þorri Vilhelmsson auglýsinga- og vefstjóri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
_ _ _
- Nokkur barna stofnenda Hölds koma að fyrirtækinu í dag: Arna Skúladóttir og Vilhelm Þorri Vilhelmsson, sem eru á myndinni að ofan, starfa bæði hjá félaginu. Baldvin Birgisson er einn eigenda og situr í stjórn og Svanhildur Vilhelmsdóttir situr einnig í stjórn félagsins. Hún er eiginkona Steingríms forstjóra.
_ _ _
Á vef Hölds - Bílaleigu Akureyrar segir að alla tíð hafi verið lögð mikil áhersla á góðan starfsanda og við eigendaskiptin árið 2003 sagði fráfarandi framkvæmdastjóri, Skúli Ágústsson, á árshátíð félagsins:
„Við lítum á fyrirtækið okkar sem eina góða samheldna fjölskyldu. Við lítum ekki á okkur sem stóra eða merkilega eigendur, heldur eru allir sem starfa hjá okkur hluti af okkar fjölskyldu.“
Þetta viðhorf hefur alla tíð verið ríkjandi hjá stjórnendum Hölds og er enn þann dag í dag, þó það sé vissulega meiri áskorun að viðhalda fjölskylduböndunum þegar fjölskyldan stækkar mikið og dreifist víða um land.
Nokkrir jeppar frá Bílaleigu Akureyrar á flotastöð bandaríska hersins á Miðnesheiði. Mynd tekin í júní 1983.
Í dag rekur Höldur ehf. Bílaleigu Akureyrar sem fyrr segir, stærstu bílaleigu landsins með um 8.000 bíla í rekstri og starfsstöðvar víðsvegar um landið. Fjöldi starfsmanna er frá 280 til 350 eftir árstíma.
Höfuðstöðvar Hölds eru á Akureyri og þar rekur fyrirtækið einnig öfluga bílaþjónustu sem samanstendur af dekkjaverkstæði ásamt bílaþvottastöð við Glerártorg, bílasölu með nýja og notaða bíla að Þórsstíg 2 ásamt vel útbúnu bíla og- tjónaviðgerðaverkstæði í 2300 fermetra húsnæði að Þórsstíg 4.
TF-ELT skrúfuþota Hölds á Akureyrarflugvelli í febrúar 1991. Flugrekstur var lengi snar þáttur í sögu þessa norðlenska fyrirtækis.
Félagið rak þrjár Esso bensínstöðvar og sjoppur á Akureyri um langt skeið. Þessi mynd er tekin árið 2002 af stöðinni við Tryggvabraut. Í sama húsi eru aðalskrifstofur Hölds.
Framkvæmdir við nýja bílasölu Hölds að Þórsstíg 2 í nóvember árið 2002. Áður var áhaldageymsla Akureyrarbæjar þarna til húsa í fjöldamörg ár.
Höldur rak verslun og veitingastað í samstarfi við Blómaval í glerhúsinu við Drottningarbraut um nokkura ára skeið
Gróðursetning á Hólasandi. Starfsfólk Bílaleigu Akureyrar hefur farið fjölmargar ferðir og gróðursett plöntur á Hólasandi. Þar vaxa nú og dafna á annan tug þúsunda plantna.
Á árum áður skiptist bílasala Hölds í nýja og notaða bíla. Myndin er úr sýningarsal notaðra bíla sem var í húsi við Hvannavelli þar sem timbursala Kaupfélags Eyfirðinga var áður. Húsið þar sem verslunarhúsnæði Krónunnar er nú.
Oft var þröng á þingi í dekkjatörn fyrir utan gamla dekkjaverkstæðið við Tryggvabraut.
Opnunarhátið og bílasýning árið 1986 á nýju bílaverkstæði við Draupnisgötu. Bílar frá Mitsubishi nutu mikilla vinsælda hér á landi á þessum árum.
Lada Sport bílar frá Bílaleigu Akureyrar sérútbúnir sem undanfarar í „Tomma Rallý“ haustið 1981.