Fréttir
Færðu fæðingardeild SAk 884.000 krónur
25.10.2022 kl. 17:35
Viðburðurinn Mömmur og möffins sem árlega er haldinn í Lystigarðinum um Verslunarmannahelgina hefur styrkt fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri myndarlega á síðustu árum. Þar eru seldar gómsætar og fagurlega skreyttar bollakökur – stundum kallaðar möffins upp á útlensku. Í ár seldist allt sem bakað var og í vikunni komu þær sem stóðu að samkomunni færandi hendi og afhentu deildinni 884.000 krónur. Ingibjörg Jónsdóttir forstöðuljósmóðir veitti fénu móttöku full þakklætis. Að sögn hennar verða peningarnir notaðir til kaupa á þráðlausum hjartsláttarmonitor. Á myndinni eru, frá vinstri, Erna Sigrún Hallgrímsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir og Anna Sóley Cabrera.