Fara í efni
Fréttir

Færðu barnadeild SAk snjókarl að gjöf

Aðalheiður Guðmundsdóttir forstöðuhjúkrunarfræðingur á barnadeildinni, Birta Lind Björnsdóttir, Elma Rún Ingvarsdóttir sérfræðingur í barnahjúkrun og Hjörleifur Árnason frá Polynorh. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Eigendur fyrirtækisins Polynorth færðu barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri forláta snjókarl úr froðuplasti að gjöf á föstudaginn. „Við seljum einangrunarplast og þegar fer að að snjóa og róast í húsbyggingum fáum við stundum svona skrýtnar hugmyndir!“ sagði Hjörleifur Árnason hjá Polynorth við Akureyri.net.

„Við erum svo lengi að búa til einn snjókarl að líklega myndi enginn vilja kaupa, hann yrði mjög dýr. Þess vegna er langbest að gefa hann,“ sagði Hjörleifur. Áður hafði Polynorth gefið einn karl á Garún kaffihús í Hofi. „Við viljum gefa snjókarla þangað sem þeir fá að njóta sín og einhver hefur gaman af,“ sagði Hjörleifur og starfsfólk barnadeildar SAk sagði öruggt mál að börnin myndu gleðjast. Birta Lind Björnsdóttir sem er á myndinni tók undir það. Hún varð fyrir því óláni að handleggsbrotna daginn áður í íþróttatíma í Varmahlíð en var orðin hin hressasta.

„Ætli næsti snjókarl fari ekki á elliheimili,“ sagði Hjörleifur. Hann nefndi að karlinn væri sterkbyggður og rækilega festur saman en benti starfsfólki barnadeildar á að ef eitthvað kæmi fyrir gripinn skyldi það ekki hika við að hafa samband við fyrirtækið. „Við erum líka með viðgerðarþjónustu á snjókörlum!"