Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku
Eyþór Björnsson hefur verið ráðinn forstjóri Norðurorku. Hann tekur við starfinu af Helga Jóhannessyni sem lætur af starfi vegna aldurs.
Eyþór er framkvæmdastjóri SSNE sem eru sameinuð landshlutasamtök Eyþings, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Eyþór hefur leitt SSNE í gegnum það sameiningar- og breytingarferli. Áður var Eyþór Fiskistofustjóri á árabilinu 2010 til 2020 og vann þar m.a. með starfsfólki sínu að flutningi Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar.
„Eyþór hefur góða þekkingu á rekstri, stjórnun og breytingastjórnun sem mun nýtast vel í starfi forstjóra,“ segir í tilkynningu frá Norðurorku.
„Eyþór er með B.Sc menntun í sjávarútvegsfræði, með MBA (Master of business Administration), diplómu í alþjóðlegum hafrétti auk diplómu í opinberri stjórnsýslu. Að auki hefur Eyþór sótt fjölmörg námskeið sem tengjast stjórnun, starfsmannamálum, fjármálum og opinberri stjórnsýslu.
Starf forstjóra Norðurorku var auglýst þann 15. mars sl. og voru tuttugu og fimm umsækjendur um starfið, tíu umsækjendur drógu umsókn sína til baka. Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðningarþjónustuna Mögnum á Akureyri.
Eyþór mun taka við starfinu af Helga Jóhannessyni.“