Eva átti viðtal ársins: „Ég er stolt og þakklát“

Akureyringurinn Eva Björk Benediktsdóttir, fréttamaður á RÚV, hlaut blaðamannaverðlaunin fyrir besta viðtal ársins 2024. Verðlaun Blaðamannafélags Íslands voru afhent í gærkvöldi. Eva kom átakanlegri sögu Hafdísar Báru Óskarsdóttur til skila á vandaðan og góðan hátt í desember á síðasta ári. Blaðamaður Akureyri.net heyrði í Evu og kveðst hún uppfull af þakklæti fyrir viðurkenninguna.
„Ég er stolt og þakklát, sér í lagi að fá viðurkenningu fyrir þetta viðtal því málefnið stendur mér mjög nærri,“ segir Eva Björk. „Hafdís Bára sýndi svo mikið hugrekki að segja frá öllu því sem gekk á og var skýr og heiðarleg í sinni frásögn. Við höfðum verið í sambandi vikum saman vegna ástandsins og ég held að traustið sem við bárum hvor til annarrar í þessu hafi skilað sér í viðtalinu.“
Ég vona fyrst og fremst að frásögnin hennar verði til þess að eitthvað breytist í kerfinu okkar og við gerum betur
Hér má sjá viðtalið og umfjöllun Evu, en Hafdís Bára þoldi hræðilegt ofbeldi af hendi barnsföður síns, skömmu eftir að beiðni um nálgunarbann hafði verið hafnað.
Í umsögn Blaðamannafélags Íslands um ástæður þess, að þetta viðtal hlaut verðlaunin, segir; Viðmælandinn lýsir því hvernig lögregla brást henni í aðdraganda árásarinnar, en maðurinn hefur nú verið ákærður fyrir tilraun til manndráps og fleiri brot. Viðmælandi dregur ekkert undan svo úr verður sláandi frásögn, auk þess sem blaðamaður nýtir sjónvarpsmiðilinn á áhrifaríkan hátt.
Saga Hafdísar bara ein af fjölmörgum
„90 mínútna viðtal varð að 15 mínútna innslagi með mikilli yfirlegu svo allt skilaði sér sem þurfti,“ segir Eva Björk. „Svo er ég líka með yfirburðarfólk með mér í liði á RÚV sem áttu sinn þátt í lokaútkomunni. Ég vona fyrst og fremst að frásögnin hennar verði til þess að eitthvað breytist í kerfinu okkar og við gerum betur. Saga Hafdísar er bara ein af fjölmörgum og sýnir svo skýrt að svona mál eru dauðans alvara.“
Akureyri.net óskar Evu innilega til hamingju með verðlaunin.
Aðrir sigurvegarar kvöldsins
- Blaðamannaverðlaun ársins hlaut Freyr Gígja Gunnarsson, kollegi Evu Bjarkar á RÚV. Hann fékk verðlaunin fyrir fréttaskýringar í Speglinum.
- Verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins féllu í skaut Sunnu Óskar Logadóttur og Bjartmars Odds Þeys Alexanderssonar, Heimildinni, fyrir fréttaskýringar um Running Tide.
- Berghildur Erla Bernharðsdóttir, fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar hlaut verðlaun fyrir umfjöllun ársins, fyrir sjónvarpsþáttaröðina Vistheimilin.
Allir sigurvegarar kvöldsins. Frá vinstri: Berghildur Erla Bernharðsdóttir, Eva Björg Benediktsdóttir, Sunna Ósk Logadóttir, Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson og Freyr Gígja Gunnarsson. Mynd: Heimasíða Blaðamannafélagsins/Ragnheiður