Fara í efni
Fréttir

Er ekki 52 sentimetra jafnfallinn snjór nóg?

Líkamsrækt dagsins fór fram utandyra hjá ansi mörgum Akureyringum. Sem betur fer er snjórinn enn í því formi sem kallað er lausamjöll á fallegri íslensku. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Síðan byrjaði að snjóa fyrir alvöru í þessari „bylgju“ – eins og það heitir nú til dags á Covid- og handboltamáli – er jafnfjallin mjöllin 52 sentimetrar á Akureyri. Þar sem skafið hefur hressilega eru skaflar miklu hærri, eins og duglegir skóflueigendur vita, en 52 er hin formlega tala lögreglunnar. 

„Við tökum veðrið á þriggja klukkutíma fresti og mælum snjódýpt einu sinni á dag. Dýptin er mæld á stað þar sem ekki hefur skafið,“ sagði varðstjóri í samtali við Akureyri.net í dag. „Þetta voru 47 sentimetrar í gær en var komið í 52 í dag,“ sagði hann. Þessi úrkomuhrina hófst fyrir alvöru á fimmtudaginn.

Umferð í bænum hefur gengið bærilega í dag að sögn lögreglunnar. „Það lentu vissulega margir í veseni í morgun; menn voru fastir hér og þar í íbúðagötum, ef þeir voru ekki á vel útbúnum bílum, en svo lagaðist ástandið með morgninum,“ sagði varðstjórinn.

Liðlega 30 snjómoksturstæki hafa verið á ferðinni í dag og segir Jón S. Hansen, verkstjóri hjá Akureyrarbæ, að mikil vinna sé framundan við að hreinsa bæinn vel, en ekki sé spáð úrkomu næstu daga sem geri verkefnið vissulega auðveldara en ella. Ófært hefur verið upp í Hlíðarfjall síðustu daga og skíðasvæðið lokað, enda skíðamönnum hvort sem er ekki út sigandi vegna veðurs, en lokið var við að ryðja veginn um hádegi. Neðri hluti skíðasvæðisins er opinn til klukkan 19, en efri hlutinn lokaður vegna snjóflóðahættu.

Svarið við spurningunni í fyrirsögninni er einfalt: Jú, þetta er orðið fínt! Veðurfræðingar eru því sammála og spá nokkurra stiga frosti fram að helgi og meira að segja sól á fimmtudaginn. Á laugardaginn verður hins vegar að öllum líkindum aftur boðið upp á úrkomu, þó ekki sé ljóst hvort hún verður í formi vatnsdropa eða snjókomu.