Fara í efni
Fréttir

Er tæknin að stinga stefnumótunina af?

Mynd: Vanessa Loring

Stafrænt læsi er hugtak sem verður æ fyrirferðarmeira í opinberri umræðu og ekki að ástæðulausu. Snjalltæknin þróast á hraða sem ekkert okkar nær almennilega utan um. Athafnir og aðgerðir sem áttu fyrir örfáum árum heima í vísindaskáldsögum og kvikmyndum sem gerðust í framtíðinni eru allt í einu orðnar að einhverju hversdagslegu. Það tekur á fyrir mörg okkar að fylgja þessari þróun eftir og hætta á að ef við höldum ekki vöku okkar verðum við ólæs á hinn stafræna heim.

Stafrænt læsi var rætt á bæjarstjórnarfundi í liðinni viku og kom fram í bókun meirihlutans að þar á bæ hefði fólk viljað vera komið lengra með umræðuna.

_ _ _

Stafræni heimurinn er víðfeðmari en flest okkar gera sér grein fyrir og ekki hlaupið að því að skilgreina hvað felst í því að vera læs á þann heim. Akureyri.net gerir hér tilraun til að skilgreina stafrænt læsi í stuttu máli: 

  • Skilningur á stafrænu umhverfi, tækninni og þeirri þekkingu sem þar er að finna.
  • Hæfni til að leita upplýsinga, skilja þær, flokka og greina trúverðugleika þeirra.
  • Skilningur á því hvernig og hvenær er rétt að nýta þá þekkingu sem stafræna umhverfið býður upp á.
  • Samfélagsmiðlar, notkun, áhrif, markaðssetning, deiling efnis. Hvað er rétt og hvað er rangt.

_ _ _

Mikilvægt, en út undan?

Umræðan í bæjarstjórn hófst með fyrirspurn Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur, bæjarfulltrúa B-lista, um vinnu við að auka stafrænt læsi barna og ungmenna. Sunna Hlín benti á samþykkt bæjarstjórnar frá 1. nóvember 2022 þar sem bæjarstjórn telur mikilvægt að leggja áherslu á stafrænt læsi barna og ungmenna í nýrri lýðheilsustefnu Akureyrarbæjar og í framhaldinu í aðgerðaáætlun forvarnastarfs sem tæki þá ekki aðeins á notkun og samskiptum á miðlunum heldur einnig markaðsstarfi þeirra.

Sunna Hlín sagði þrjár ástæður fyrir því að hún legði fram fyrirspurnina. Í fyrsta lagi að henni fyndist að fólk væri að átta sig betur á mikilvægi þess að til að lifa með snjalltækni verðum við að vera læs á hana. Í öðru lagi að hún hefði áhyggjur af því bakslagi sem hafi orðið í alls konar réttindabaráttu og teldi að algóritminn hefði þar mikið að segja. Í þriðja lagi einfaldlega til að ýta á eftir og spyrjast fyrir um hvar málið væri statt í kerfinu þar sem ár væri liðið frá samþykkt bæjarstjórnar sem nefnd er hér að ofan.

Forvarnir gegn fleiru en áfengi og eiturlyfjum

Í ræðu sinni á bæjarstjórnarfundinum sagði Sunna Hlín meðal annars:

Fyrir áratugum fengum við forvarnafræðslu sem snýr að áfengi og eiturlyfjum. En forvarnir í dag þurfa að taka á fleiri þáttum og snúa ekki síður að fylgifiskum tækninnar. Það þarf bæði að efla stafrænt læsi og sömuleiðis fjármálalæsi þar sem boðleiðir tækninnar í dag hafa sannarlega áhrif á neyslu okkar og ekki síst unga fólksins sem er mjög meðtækilegt fyrir markaðsáreitinu. En hver á að sinna þessari fræðslu? Erum það við foreldrarnir sem erum ekki alin upp við þessa tækni og skiljum ekki sjálf hvað er í gangi? Eða eigum við að setja það í hendur kennara sem hafa nú þegar nóg á sinni könnu og eru auk þess ekki sérfræðingar í þessu viðskiptamódeli snjalltækninnar? Við vitum að að baki stafrænna miðla eru stór fyrirtæki með sérfræðinga á hverju strái sem vita nákvæmlega hvernig á að gera okkur háð þessari tækni og hafa áhrif á neytendahegðun okkar. Það þarf að auka fræðslu um óbeina markaðssetningu, vöruinnskot, áhrifavaldamarkaðssetningu, hvernig markaðsskilaboð elta okkur á miðlunum, falsfréttir, bergmálshelli, gervigreind og síðast en ekki síst, hvernig viðskiptamódelin virka. Og þetta er ekki lítið. Við berum þá gæfu að hjá Akureyrarbæ starfa sjö forvarnafulltrúar sem sinna fræðslu í skólum, vel menntað fólk sem er með puttann á púlsinum, sem ég treysti fyrir þessari vegferð, en það verður að vera með stuðningi okkar í pólitíkinni. Við verðum að tryggja þeim viðeigandi fræðslu og skilaboðin verða að vera skýr frá okkur í allri stefnumörkun að við viljum leggja áherslu á þetta.

Mynd: Kampus Production  

Engin umræða um stafrænt læsi

Sunna Hlín rifjaði upp bókun sem lögð var fram í bæjarstjórn 1. nóvember 2022: Bæjarstjórn telur mikilvægt að leggja sérstaka áherslu á stafrænt læsi barna og ungmenna í nýrri lýðheilsustefnu Akureyrarbæjar og í framhaldinu í aðgerðaáætlun forvarnastarfs sem tæki þá ekki aðeins á notkun og samskiptum á miðlunum, heldur einnig markaðsstarfi þeirra.

Þá benti hún á að forvarnastefna Akureyrarbæjar væri löngu runnin út, en sér hafi alltaf þótt hún góð. Hún kvaðst treysta forvarnafulltrúum skólanna fyrir þeirri vinnu sem þörf er á að vinna, en einhvers staðar þurfi þessi vinna að koma inn. Talað hafi verið um að ný forvarnastefna ætti að renna inn í nýja lýðheilsustefnu. Í því sambandi vakti hún athygli á að lengi hafi verið unnið að nýrri lýðheilsustefnu og lýsti áhyggjum af þessum málum, spurði hvað væri að frétta af þessari vinnu. Hún kvaðst aldrei hafa séð umræðu um stafrænt læsi inni í fræðslu- og lýðheilsuráði þrátt fyrir áðurnefnda bókun og málið hafi ekki verið tekið á dagskrá þó hún hafi sent tölvupósta og ýtt á eftir því.

Ég tel þess vegna mjög mikilvægt að þessi umræða fari af stað og tekin ákvörðun um hvernig sé best að gera þetta og í hvaða farvegi,sagði Sunna Hlín Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi B-lista.

Spil sem halda þarf á lofti

Heimir Örn Árnason, formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs, tók undir með Sunnu Hlín um mikilvægi þess að ræða meira um þessi mál, þetta væri spil sem halda þyrfti stöðugt á lofti. Hann kvað meirihlutann ætla að taka þeirri áskorun Sunnu Hlínar og Framsóknar að ræða þessi mál á næsta fundi fræðslu- og lýðheilsuráðs, hver staðan sé, hvað hægt er að gera betur og hvernig hægt sé að styðja við foreldra og kennara til að ræða þessi mál meira.

Heimir Örn vakti athygli á að Aðalnámskrá grunnskóla hafi verið gefin út fyrir tíu árum og sagði það afar sorglega þróun miðað við breytingarnar sem orðið hafa á liðnum tíu árum. Það sé á ábyrgð þeirra sem starfa í stjórnmálum að setja pressu á þessi mál, en sem betur fer hafi á undanförnum fimm til átta árum komið mjög mikið af fræðsluefni bæði fyrir kennara og foreldra.

Heimir benti á að Netumferðarskólinn færi hringinn um landið og kæmi til Akureyrar í nóvember, en þar sé til dæmis rætt um netöryggi, samfélagsmiðla, persónuupplýsingar, stafrænt fótspor, miðlalæsi og gagnrýna hugsun. Það sé hins vegar ekki nóg að koma bara einu sinni, þessum málum þurfi að halda stöðugt á lofti.

Ég er sannfærður um það að með góðu átaki, bæði í skólum og heima fyrir, að við getum gert betur í þessum málum,“ sagði Heimir Örn Árnason, bæjarfulltrúi D-lista og formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs.

Mikilvægt að huga að gervigreindinni

Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi S-lista, benti á hve umfangsmikil og stór þessi umræða væri og vakti athygli á mikilvægi þess að taka heildarmyndina með í reikninginn, mikilvægt væri að hafa í huga og ræða að við búum í breyttum heimi, hvernig við ætlum okkur að aðlagast þeim breytingum sem eru að eiga sér stað, það sé hin hliðin á umræðunni. Mest aðkallandi núna sagði hún vera hvernig grunnskólakerfið muni þróast í tengslum við gervigreind.

Hilda Jana sagði umræðuna verðuga varðandi hættuna og ógnanir sem stafa af breytingum í stafrænum heimi, en jafnframt mikilvægt að huga einnig að tækifærunum, eða að minnsta kosti hver aðlögun okkar að þessu breytta umhverfi verði, hvort það eigi erindi í skólana og þá hvernig. Hún skoraði á Heimi Örn, sem formann fræðslu- og lýðheilsuráðs, að hafa í huga hvort og hvernig ætti að fara í vinnu með sérfræðingum innan skólakerfisins við að laga grunnskólakerfið að þessum breytt heimi og ræða það ekki síst með tilliti til gervigreindarinnar.

Hefðum viljað vera komin lengra

Umræðunni lauk með bókun sem bæjarfulltrúar meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn lögðu fram; fulltrúar D, L og M-lista: 

Vinna við lýðheilsustefnu er hafin og sérstök áhersla verður lögð á stafrænt læsi barna og aðgerðir þar að lútandi líkt og bæjarstjórn hefur áður bókað. Við hefðum gjarnan viljað vera komin lengra með vinnuna en raunin er, en vonandi fara tillögur að líta dagsins ljós. Málefnið verður sett á dagskrá næsta fundar fræðslu- og lýðheilsuráðs til umræðu.