Fara í efni
Fréttir

Enn lagaleg óvissa um formannskjörið?

Fráfarandi – eða mögulega enn núverandi – formaður Bandalags kennara á Norðurlandi eystra (BKNE), Helga Dögg Sverrisdóttir, segir enn ríkja lagalega óvissu með kjör formanns bandalagsins.

Akureyri.net greindi frá yfirlýsingu fjögurra stjórnarkvenna BKNE sem birt var á Facebook-síðu bandalagsins í gær þar sem þær lýstu því yfir að löglega hafi verið boðað til og staðið að aðalfundi, lagabreytingum og formannskjör í bandalaginu. Þar lýstu þær Hönnu Dóru Markúsdóttur rétt kjörna í embætti formanns og að hún tæki við stjórnartaumunum frá og með deginum í gær.

Helga Dögg Sverrisdóttir segir í athugasemd við áðurnefnda færslu að enn ríki lagaleg óvissa með kjör formannsins.

Málið í hnotskurn: Helga Dögg var kjörin formaður til tveggja ára á aðalfundi 2022. Þegar aðalfundur var boðaður í haust var tilkynnt um tillögu til lagabreytingar þar sem formaður yrði kjörinn til eins árs í senn. Lagabreytingin var samþykkt og fór formannskjör strax fram í samræmi við þá lagabreytingu. Deilt hefur verið annars vegar um lögmæti aðalfundarins með tilliti til þess með hve miklum fyrirvara hann var boðaður og hins vegar hvort löglegt hafi verið að formannskjör færi fram strax á sama aðalfundi og áðurnefnd lagabreyting var gerð.

Í athugasemdinni skrifar Helga Dögg meðal annars að þrátt fyrir umleitanir til að fá niðurstöðu í lagalegu hlið málsins, sem hún telur mjög mikilvægt, hafi það ekki verið gert. Hún bendir á að fengin hafi verið tvö lögfræðileg álit sem ekki séu samhljóma. Hún segir að eðlilegast hefði verið að fá lögmenn til að greiða úr flækjunni. Það hafi ekki verið gert og því sé formannskjörið enn lögfræðilega óútkljáð. Ágreiningurinn snúist um hvort fundarsköp hafi verið virt.

Ekki hægt að benda á einn sem ábyrgðaraðila

Í athugasemd við skrif Helgu Daggar er bent á ábyrgð hennar sjálfrar á boðun fundarins og fundarsköpum. Helga Dögg tekur á sig þá ábyrgð, en bendir á að hún hvíli á fleiri herðum. Mín ferlegu mistök og þau viðurkenni ég,skrifar Helga Dögg, en jafnframt að fleira fundavant fólk hafi verið á fundinum. Hef lært að ekki beri að treysta eingöngu á fundarstjóra heldur verða fleiri að vera meðvitaðir um fundarsköp. Að sjálfsögðu hefði stjórn BKNE átt að hafa fundarsköpin á hreinu.Þar bendir hún einnig á formann Félags grunnskólakennara sem hafi verið á fundinum og sé þaulvanur fundarstjóri. Ekki er hægt að benda á einn sem ábyrgðaraðila, við vorum nokkur þarna sem gátum gripið inn, en enginn gerði það,” skrifar hún enn fremur.

Helga Dögg skrifar einnig í athugasemdinni að búið sé að ákveða að kanna ekki frekar lögmætið og hvernig hægt væri að leysa úr lagaflækjunni. Af því leiði að ekki verði annar fundur í boði, en ef tekið hefði verið af skynsemi á málinu væri sennilega verið að boða til nýs aðalfundar um þessar mundir. Því ríki enn lagaleg óvissa um málið, því miður. Helga Dögg endar athugasemdina á að skrifa að lagabreytingin sé lögleg, hana þurfi ekki að endurtaka, en að áhöld séu um það sem á eftir kom.