Listin alltaf áberandi í Akureyrarkirkju
Christen Knudsen Thyrrestrup, fæddur í Álaborg í Danmörku, er einn fyrsti kaupmaðurinn sem lét til sín taka á Akureyri. Árið 1839 keypti hann verslun Jóhanns Gudmann á höndlunarstaðnum. Thyrrestrup hafði unnið við verslunina allt frá árinu 1815, lengi sem verslunarstjóri. Hann og eiginkona hans, Edle Eleonora Torp, kaupmannsdóttir frá Kaupmannahöfn, eignuðust tvær dætur, Sophie Jacobine og Gertrud. Sophie giftist Jóhanni Godtfred Havsteen, kaupmanni á Akureyri, en Gertrud var eiginkona Magnúsar Stefánssonar Thorarensen, bónda á Stóra-Eyrarlandi.
Þær Thyrrestrupsystur þóttust ekki síðri en aðrir íbúar á eyrinni enda tilheyrðu þær hinni dönsku yfirstétt. Það fólk drakk sunnudagskaffi prúðbúið í sumarstillum úti í skrúðgörðunum sem það hafði ræktað með ærinni fyrirhöfn undir hlíðum höfðans.
Dönsku kaupmennirnir og þeirra fjölskyldur fylgdust ekkert síður en aðrir með Akureyri vaxa og þegar loksins kom að því árið 1862, að byrjað var að reisa kirkju í þessum litla kaupstað var það þeim mikið fagnaðarefni. Tveimur árum áður hafði dregið til þeirra tíðinda, að hið gamla Hrafnagilsprestakall sem Akureyringar tilheyrðu, breyttist í Akureyrarprestakall. Fyrsti sóknarprestur þess, sr. Daníel Halldórsson, sat áfram á Hrafnagili eftir breytinguna, enda engin kirkja komin í þéttbýlið. Í Sögu Akureyrar, hinu lipra og fróðlega verki Jóns Hjaltasonar, er rifjaður upp örlítill atburður tengdur byggingu hinnar langþráðu kirkju í Fjörunni.
Ekki tvennar dyr á himnaríki
„Sú saga er sögð af þeim Thyrrestrupsystrum að þegar kirkjusmíðinni á Akureyri lauk og í ljós kom að heldra fólkið átti að ganga til fundar við almættið inn um sömu gætt og sauðsvartur almúginn hafi þær kvartað yfir því að ekki skyldu vera nema einar dyr á guðshúsinu. Séra Daníel á hins vegar að hafa látið sér fátt um finnast og svaraði dansktalandi frúnum að hann hefði aldrei heyrt þess getið að tvennar dyr væru á himnaríki.“
Þar með var sleginn fallegur tónn strax við upphaf kirkjulegs starfs á Akureyri. Það skyldi vera öllum ætlað og kirkjan öllum opin.
Skírnarfaðir minn og samstarfsmaður, hið brosmilda ljúfmenni sr. Birgir Snæbjörnsson, sagði eitt sinn að Akureyrarkirkja væri aldrei fegurri en þegar hún væri full af fólki. Þar með minnti hann okkur á, að enda þótt kirkjan sé fallega hönnuð og listilega byggð er það söfnuðurinn sem gefur húsinu gildi. Kirkjan er hvorki safngripur né minnisvarði heldur húsaskjól fyrir skapandi starfsemi og andlega menningu fólks.
Í grein sem Jónas Jónsson frá Hriflu ritaði í jólablað Tímans stuttu eftir vígslu Akureyrarkirkju hinnar nýrri árið 1940 segir hann Akureyringar eigi „skilið þökk og aðdáun samborgara sinna fyrir glæsilega forustu við að tengja saman kirkjulegar athafnir og listrænan hugsunarhátt“.
Listin hefur alla tíð verið áberandi og fyrirferðarmikil í starfi Akureyrarkirkju. Kirkjan sjálf er listaverk eins merkasta arkitekts Íslands, Guðjóns Samúelssonar. Húsið geymir innan veggja sinna fjölmörg listaverk; lágmyndir Ásmundar Sveinssonar framan á kórloftinu, helgimyndir Kristínar K. Þ. Thoroddsen í kirkjuskipinu, skírnarfont eftir prófessor Corrado Vigni, eftirmynd skírnarengils Bertels Thorvaldsen í Frúarkirkju í Kaupmannahöfn, skipslíkan Jóhannesar Ólafssonar sem hangir niður úr lofti kirkjunnar, ljósakross sem lagður er silfurbergi, hönnun arkitekts kirkjunnar og myndarúður eftir enska listamenn og akureyska myndlistarmanninn Kristin G. Jóhannsson.
Barnakórar flytja helgileik í Akureyrarkirkju annan dag jóla 2011.
Öflugt tónlistarstarf
Tónlistinni hefur alla tíð verið gert hátt undir höfði í Akureyrarkirkju. Hún er sem slík hljóðfæri í tvennum skilningi. Annars vegar þykir hljómburðurinn góður undir hvelfingu kirkjunnar enda sérstakt tillit tekið til hans við hönnun hennar. Hins vegar er klukkuspil Akureyrarkirkju. Það leikur fyrir bæjarbúa ferhendu eftir Björgvin Guðmundsson, tónskáld, með þeim hætti, að fyrsta hendingin, sem táknar uppvaxtarár mannsins, er leikin eftir fyrsta fjórðung hverrar stundar en síðan bætt við einni hendingu við hvern fjórðung sem líður, ungþroskaskeiði, manndómsárun og hnignun. Þannig flytur klukkuspilið verkið allt einu sinni á hverjum lífsins klukkutíma.
Kór Akureyrarkirkja rekur sögu sína allt aftur til ársins 1945 og fagnar því 75 ára afmæli á þessu ári. Stofnfélagar voru 27 talsins. Á langri sögu sinni hefur kórinn oft verið öflugur og fjölmennur. Hann hefur efnt til ótalmargra tónleika, m. a. árlegra jólasöngva sem njóta mikilla vinsælda og eru orðnir hluti af undirbúningi jólanna hjá stórum hluta bæjarbúua. Nú hin síðari ár hafa þeir verið svo vel sóttir að þurft hefur að hafa þá tvisvar sama dag til að allir gætu notið þeirra sem vildu. Kórinn hefur tekið upp hljómplötur og diska. Söngferðir kórsins eru orðnar fjölmargar, bæði innan lands og utan. Nú er starf kórsins í miklum blóma. Hann er með stærri kirkjukórum landsins. Auk þess starfa barnakórar við kirkjuna. Framlag þeirra til helgihalds, safnaðarstarfs og listalífs í Akureyrarkirkju er ómetanlegt. Þrír organistar eru að störfum við kirkjuna, Eyþór Ingi Jónsson, Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og Þorvaldur Örn Davíðsson.
Fyrsta söngkennsla sem fram fór á Akureyri var í þágu kirkjusöngsins, til að fegra hann og fullkomna. Hún hófst haustið 1863, sama ár og Akureyrarkirkja hin eldri var víg. Tveir framámenn í bænum stofnuðu þennan söngskóla. Annar þeirra var Jóhannes Halldórsson, guðfræðingur sem lengi var skólastjóri Barnaskóla Akureyrar. Tæpa tvo áratugi var Jóhannes oddviti bæjarstjórnar Akureyrar.
Hinn frumkvöðull tónlistarkennslu og kirkjusöngs á Akureyri var Bernhard Steincke, verslunarstjóri. Hann titlaði sig tónlistarfræðing og kenndi á gítar auk söngkennslunnar. Steincke var á sínum tíma einn helsti forvígismaður menningarlífs á Akureyri, hafði frumkvæði að fyrstu leiksýningunni í bænum, stofnaði fyrsta kórinn þar og var meðal frumkvöðla að bæði barnaskóla og sjúkrahúsi. Steincke lét að sér kveða á fleiri sviðum, efldi t.d. þilskipaútgerð Akureyringa og hákarlaveiðar.
Gróa á Leiti
Þau sem eru aðsópsmikil í samfélögum eru gjarnan umtöluð. Sá orðrómur tekur á sig ýmsar myndir og geta þau átt von á ýmsu sem fara ótroðnar slóðir, láta til sín taka og eru óhrædd við að gára hinn slétta mannfélagsflöt. Bernhard Steincke fékk að reyna það. Áður en við ljúkum þessum fyrsta pistli um starfið í Akureyrarkirkju rifjum við upp söguburð um Steincke, til að minna okkur á það hlutskipti margra athafnamanna að verða fyrir barðinu á Gróu á Leiti.
Í bæjarblaðinu Degi í nóvember árið 1946 er pistill þar sem fjallað er um mýs á Íslandi. Þær eru sagðar hafa borist hingað upp með landnámsmönnum. Íslenskar mýs séu tvenns konar: Húsa- eða bæjarmús annars vegar og hins vegar, fjalla- eða hagamús. Sú síðarnefnda sé stærri. Ekki sé vitað til að Íslendingar hafi étið mýs nema vesalingar sem voru við það að verða hungurmorða í Móðuharðindunum.
Þegar útlendingar fóru að venja komur sínar hingað upp urðu umskipti til hins verra á afkomuöryggi músa á Íslandi því aðkomumenn reyndust sumir vera gráðugar músaætur. Þeirra á meðal var Steincke kaupmaður á Akureyri. Hann var að sögn blaðsins sólginn í mýs, einkum hagamýs, sem hann taldi feitari og bragðbetri en hinar. Í pistlinum er sagt, að hann hafi greitt fírskilding fyrir stykkið.
Eitt sinn bauð þessi danski menningarfrömuður og velgjörðarmaður Akureyrar góðbónda framan úr firði í mat. Segir svo frá því boði í Degi:
„Var matur á borð borinn fyrir þá, og var það steik. Tók bóndi vel til matar síns og þótti steikin hin ljúffengasta. – Steincke kaupmaður, sem dvalið hafði hér á landi alllengi, en var danskur að uppruna, talaði íslenzku svo mikið, þó bjöguð væri mjög, að hann gat gert sig skiljanlegan, spurði bónda, er þeir voru að ljúka máltíðinni, hvernig honum líkaði steik þessi. Bóndi lét mjög vel yfir. Sagði þá kaupmaður, að það gleddi sig, enda hefði hann sjaldan fengið svo feitar og bústnar mýs. Væri það víst hinu góða árferði að þakka. – Er bóndi fékk þessar fréttir, brá honum illa við, stóð hann þegar upp frá borðinu, en þá þeystist spýja mikil upp úr honum og yfir borðið og diskana.“
Lýkur blaðamaður frétt sinn með þessum orðum:
„Ekki er þess getið, að bóndi þessi hafi aftur borðað með Steincke kaupmanni.“
Síðar sama ár er þessi furðufrétt borin til baka í grein í Degi. Það gerir akureyskur kaupmaður og starfsbróðir Steincke, Eðvald F. Möller. Hann rifjar upp, að enda þótt Steincke hafi ekki dvalist á Akureyri nema um fimmtán ára skeið, frá árinu 1860 til 1875, hafi hann komið miklu til leiðar á þeim stutta tíma og verið „lífið og sálin í öllum félagshræringum á Akureyri“. Þegar hann fór héðan var um hann sagt og til þess vitnað í varnargrein Eðvalds F. Möllers, að Eyfirðingum hafi verið mikil eftirsjá að Steincke því fáir erlendir kaupmenn hafi „reynzt slíkir dáðadrengir sem hann.“
Já, svo sannarlega eru laun heimsins oft vanþakklæti.
Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, skrifar að beiðni Akureyri.net, í tilefni 80 ára vígsluafmælis kirkjunnar sem var 17. nóvember. Þetta er fimmta grein Svavars.
Fjórða grein - Akureyrarkirkja verði nefnd eftir Matthíasi
Þriðja grein - Kamarsnið á turninum eins og dómkirkjunni
Önnur grein - Kirkjulegar hvalveiðar og ómetanlegt kvenfélag Fyrsta grein - Fegursta kirkjustæði hérlendis og erlendis