Engin endastöð í barnvænu sveitarfélagi
Akureyrarbær hefur fengið endurnýjun á viðurkenningu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, á að Akureyrarbær sé barnvænt sveitarfélag. Viðurkenningin, sem Akureyrarbær hlaut fyrst fyrir þremur árum, staðfestir mikilvægi þeirra breytinga og mikillar vinnu sem átt hafa sér stað hjá sveitarfélaginu og höfðu áhrif á framgang verkefnisins.
„Helstu áhrifin á sveitarfélagið eru almenn og aukin meðvitund um réttindi barna og að þau beri að virða. Meirihluti íbúa í sveitarfélaginu veit af verkefninu og styður við verkefni þó þörf sé á að dýpka þekkingu og skilning enn frekar. Með aukinni meðvitund hnikast hlutirnir í rétta átt þegar kemur að breytingum á verklagi og áhrifum á ákvarðanatöku með tilliti til hagsmuna barna,“ segir meðal annars í inngangi Lokaskýrslu Akureyrarbæjar vegna endurnýjunar viðurkenningar fyrir verkefnið Barnvænt sveitarfélag.
Ekki endastöð þrátt fyrir viðurkenningu
„Verkefnið er hjól og hjól heldur áfram að snúast,“ sagði Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, meðal annars í erindi þegar viðurkenningin var endurnýjuð. Á þessu er hnykkt í frétt Akureyrarbæjar, að engin endastöð sé í verkefninu þar sem segir: „Við erum því hvergi nærri hætt þó viðurkenning sé komin í hús. Við þurfum að vanda okkur, halda dampi og tryggja verkefnið þannig í sessi að þó breytingar verði að þá haldi verkefnið alltaf sterkri stöðu sinni. Þannig er krafa um þverpólitíska samstöðu með verkefninu svo mikilvæg og ekki síður samstaða íbúa sveitarfélagsins varðandi verkefnið. Því við getum öll, með einum eða öðrum hætti, haft áhrif á líf barna í sveitarfélaginu með ákvörðunum í okkar lífi og starfi.“
Alfa Aradóttir, forstöðumaður forvarna- og frístundadeildar Akureyrarbæjar, Karen Nóadóttir, verkefnisstjóri Barnvæns sveitarfélags, Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Hanna Borg Jónsdóttir, sérfræðingur í innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hjá UNICEF. Mynd: Akureyri.is.
Ýmis verkefni hafa verið unnin og verða unnin samkvæmt aðgerðaáætlun í tengslum við verkefnið Barnvænt sveitarfélag ásamt því að ýmsar breytingar hafa átt sér stað sem höfðu áhrif á framgang þess. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að þar sé um að ræða uppstokkun í skipuriti sveitarfélagsins, breytingar innan þess sviðs sem verkefnið tilheyrir og miklar starfsmannabreytingar. Samhliða þessum breytingum hafi orðið mikil framþróun í verkefninu og hafi þurft að endurskoða og ramma verkefnið frá hlið Akureyrarbæjar að einhverju leyti upp á nýtt. „Þessi ár hafa kennt okkur margt og gerir það enn gleðilegra að þessi áfangi hafi náðst. Við hæfi er að minnast á hve Ungmennaráð Akureyrar hefur þróast vel og hve mikið hlutverk þess hefur styrkst og orðið mikilvægara. Það ber að þakka,“ segir meðal annars í .
Aðgerðaáætlun í 17 liðum
Í aðgerðaáætlun verkefnisins eru 17 aðgerðir sem eiga það sameiginlegt að stuðla að bættum hag barna og ungmenna í sveitarfélaginu. Auk þeirra hafa mörg önnur verkefni verið unnin undanfarin ár sem styðja við réttindi barna, að raddir þeirra fái að heyrast og að tekið sé mark á þeim, segir einnig í fréttinni. Aðgerðunum 17 var skipt í fjóra yfirflokka; Raddir barna og valdefling, Fræðsla, Geðheilbrigði ungmenna og umhverfismál.
- Valdefling erlendra nemenda
- Yallah Gamli: Menningarfræðsla og opnar umræður
- Íþróttafélaginn
- Skólastarf með mannréttindi að leiðarljósi
- Hinsegin landsmót
- Stórþing ungmenna og skólaþing
- Barnvænt hagsmunamat
- Samráð vegna fjárhagsáætlunargerðar
- Unnið að því að allir leik- og grunnskólar sveitarfélagsins verði réttindaskólar
- Aukin þekking starfsfólks á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna
- Aukin fræðsla fyrir Ungmennaráð Akureyrar
- Markviss fræðsla í samráði við ungmenni
- Áætlun um úrbætur vegna geðheilbrigðisþjónustu barna og ungmenna
- Bergið Headspace
- Bætt verklag í baráttu við skólaforðun
- Hinsegin félagsmiðstöð
- Aukið hjólastólaaðgengi
Farið er yfir öll 17 verkefnin í lokaskýrslunni, markmið hverrar aðgerðar, tímaramma og ábyrgðaraðila.