Fara í efni
Fréttir

Endurskoða gjaldskrár fyrir 1. september

Akureyri. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Ákveðið var á fundi bæjarráðs í morgun að fara yfir og endurskoða allar gjaldskrár á vegum bæjarins sem hafa eitthvað með barnafjölskyldur og viðkvæma hópa að gera. Stefnt er að því að klára þá vinnu fyrir 1. september.

„Þetta fór aldeilis vel,“ sagði Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar, þegar Akureyri.net heyrði í henni skömmu eftir að fundi bæjarráðs lauk í morgun og var þar auðvitað að vísa til umfjöllunar um gjaldskrár á vegum bæjarins. 

Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs í morgun í framhaldi af skrifum þeirra Hildu Jönu og Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur, bæjarfulltrúa Framsóknar, í gær. Þar skoruðu þær á meirihluta bæjarstjórnar að taka þátt í sameiginlegu átaki til lækkunar á verðbólgu sem aðilar á vinnumarkaði, þar á meðal ríkisstjórnin í gegnum viðkomandi ráðuneyti, og Samband íslenskra sveitarfélaga, stóðu að í tengslum við undirritun kjarasamninga síðastliðinn vetur. Þær bentu jafnframt á bókanir og samþykktir í bæjarstjórn í framhaldi af kjarasamningum, um að Akureyrarbær tæki þátt í þessu sameiginlega verkefni.

Fagna því að brugðist sé við

Hilda Jana og Sunna Hlín fagna því að meirihlutinn hafi ákveðið að bregðast við áskorun þeirra. Þær benda þó á að heppilegra hefði verið að gera það strax og bæjarstjórn samþykkti það í mars. „Gjaldskrárnar voru hærri en þær hefðu átt að vera í fimm mánuði, sem nú þegar hefur bitnað á fólki og það er auðvitað leitt,“ segir Hilda Jana. Sunna Hlín bendir á að þetta mál sýni mikilvægi þess að stunda vandaða stjórnsýslu og standa við gefin loforð. 

Í greininni sem birtist á Akureyri.net í gær skoruðu þær á meirihlutann að sjá sóma sinn í því að snuða ekki barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu, eins og útlit var fyrir þar sem engar gjaldskrárhækkanir höfðu verið dregnar til baka og ekkert virtist benda til að meirihluti bæjarstjórnar ætlaði að vera með í þessu átaki. Þær bentu á hækkanir sem höfðu orðið á gjaldskrám frá áramótum og aðrar sem væru í farvatninu, til dæmis á vegum fræðslu- og lýðheilsuráðs. Enn væri tækifæri til að skila til baka til bæjarbúa á þeim fjórum mánuðum sem eftir eru af árinu.

Ætlar Akureyrarbær að snuða íbúa,“ var yfirskriftin á grein þeirra Hildu Jönu og Sunnu Hlínar. Niðurstaða bæjarráðs í morgun virðist þannig vera sú að svarið sé neikvætt, Akureyrarbær ætli ekki að snuða íbúa, og því fagna þær Hilda Jana og Sunna Hlín.

Þegar á allt er litið má þó ef til vill líta svo á að bæjarbúar hafi að einhverju leyti verið snuðaðir á þeim tíma sem líður frá því að gjaldskrárhækkanir hafa tekið gildi þar til gjaldskrár verða endurskoðaðar og gjöld lækkuð, ef sú verður niðurstaðan.