Endasleppt en allir kátir á Alheimsmóti skáta
Alþjóða skátahreyfingin gaf það út í morgun að Alheimsmóti skáta yrði slitið nokkrum dögum fyrr en áætlað var vegna óveðurs sem er í aðsigi. Bandalag íslenskra skáta birti í morgun tilkynningu á Facebook-síðu sinni þar sem fram kemur að ákveðið hafi verið að rýma mótssvæðið í Suður-Kóreu á hádegi á morgun að staðartíma. Fararstjórn íslenska hópsins fékk þessar fréttir í nótt. Þessi ákvörðun er tekin vegna breytinga sem hafa orðið á stefnu fellibyls sem farið hefur yfir Japan undanfarna daga og stefnir nú beint á mótssvæðið.
Íslenski hópurinn mun yfirgefa svæðið strax í kvöld til að forðast mögulega óreiðu sem gæti skapast á morgun, að því er fram kemur í tilkynningunni. Íslenski hópurinn hefur verið með frátekin herbergi á heimavist í Seúl frá því að ljóst varð að tvísýnt yrði hvort hægt væri að klára mótið á svæðinu. Íslenski hópurinn dvaldi á sama stað þegar komið var til landsins og gisti þar áður en haldið var á mótssvæðið sjálft. Auðvelt var fyrir hópinn að útvega rútur til að flytja íslenska hópinn til borgarinnar, en hann telur um 140 manns.
„Engan bilbug er að finna á íslensku skátunum enda gríðarlega flottur hópur þar á ferð. Fararstjórnir Íslands, Noregs og Danmerkur vinna náið saman í flutningi af svæðinu en þjóðirnar munu halda hópinn í Seoul og halda áfram hinni fjölþjóðlega upplifun og ævintýrum,“ segir að lokum í tilkynningunni.
Standa sig gríðarlega vel
Akureyri.net hefur verið í sambandi við einn af fararstjórum hópsins frá Skátafélaginu Klakki, en 20 manns eru frá félaginu í Suður-Kóreu. Björgvin Smári Jónsson sendi okkur línu áður en kom í ljós að mótið sjálft yrði endasleppt.
Í gær var alþjóðadagur þar sem boðið var í heimsókn í tjaldbúðir og þjóðir kynntu mat, leiki, hefðir og fleiru frá sínu heimalandi. Skátar skiptast gjarnan á skátaklútum, mótsmerkjum og fleiru og kynnast fólki frá öðrum menningarheimum, að sögn Björgvins Smára Jónssonar, eins fararstjóra hópsins frá Akureyri. Hann segir dagskrána aðeins hafa liðið fyrir þá ákvörðun Breta og Bandaríkjamanna að draga sitt fólk af mótinu.
Björgvin Smári segir aðstæður hafa stórbatnað eftir að ríkisstjórn Suður-Kóreu og herinn hafi tekið yfir umsjón með svæðinu. Fjölgað hafi verið gríðarlega í þeim hópum sem til dæmis sjá um þrif salerna og fleira. Hóparnir hafa fengið mikið af gefins varningi, svo sem viftum, kælihandklæðum, kælihárböndum, vatni og klaka. Hann segir fjölmargar rútur einnig á svæðinu með loftkælingu og fólk geti farið inn í þær í 30 mínútna hvíld og kælingu. Síðustu tveir tagar hafa verið ögn kaldari en var í upphafi mótsins, að sögn Björgvins Smára, þó hitinn sé enn vissulega mikill og rakinn mjög mikill.
„Okkar hópur stendur sig gríðarlega vel og allir hér sammála um að engin ástæða sé til að yfirgefa svæðið eins og staðan er núna,“ skrifaði Björgvin Smári í gærkvöld, áður en í ljós kom að mótinu yrði slitið vegna yfirvofandi fellibyls sem stefnir á svæðið.