Fara í efni
Fréttir

Elvar Orri safnar fyrir bíl til sjúkraflutninga

Elvar Orri Brynjarsson í fréttatíma Ríkissjónvarpsins á dögunum. Skjáskot af RUV

Elvar Orri Brynjarsson, ungur Akureyringur, hefur að undanförnu unnið sem sjálfboðaliði á landamærum Úkraínu og Póllands, eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Elvar Orri og samstarfsfélagar hans standa nú fyrir söfnun með Karolina Fund í þeim tilgangi að kaupa sendibíl sem hægt verður að nota til sjúkraflutninga og annarrar neyðaraðstoðar. Þörfin er gífurleg að sögn Elvars, bæði á slíkum ökutækjum og heilbrigðisstarfsfólki. Söfnuninni lýkur eftir fjóra daga.

  • Smellið hér til að styrkja málefnið.

Elvar Orri tilheyrir samtökum sem kallar sig Foreign United Peoples. Á hverjum tíma vinnur tíu manna hópur úr samtökunum að því að koma neyðarbirgðum frá Póllandi til Úkraínu auk þess að ferja fólk yfir landamærin til Póllands, meðal annars frá Kherson, Donetsk, Donbass, Mariupol, Kyiv og Kharkiv. 

Karolina Fund

Þörf á ökutækjum til sjúkraflutninga er gífurleg, eins og áður sagði, Markmiðið er að safna 6000 evrum (um 850.000 kr). Ef peningur verður í afgang verður hann notaður til kaupa á neyðarbirgðum s.s. lyfjum, sáraumbúðum og mat. Að verkefninu loknu yrði bíllinn gefinn til annarra hjálparstarfa í Úkraínu.

Þegar þetta er skrifað hafa safnast € 5.537, eða rúmlega 780.000 krónur. Fjórir dagar eru eftir af söfnuninni og því vel raunhæft að Elvar Orri og félagar hans í Foreign United Peoples nái markmiði sínu og geti lagt enn þyngri lóð á vogarskálarnar við að koma skelfingu lostnu og illa höldnu flóttafólki frá Úkraínu yfir landamærin til Póllands.

Aðstoðar fólk við að komast frá Úkraínu

Elvar Orri og hluti samstarfsfélaga hans á landamærum Úkraínu og Póllands.