Fara í efni
Fréttir

Elsa fyrst kvenna Norðurlandsmeistari

Skákþingi Norðlendinga lauk í dag og úrslitin urðu söguleg: Elsa María Kristínardóttir frá Akureyri varð Norðurlandsmeistari fyrst kvenna. Skákþing Norðlendinga hefur verið haldið árlega síðan 1935 og karl varð því skákmeistari Norðurlands fyrstu 88 árin!

Þórleifur Karl Karlsson frá Sauðárkróki, Norðurlandsmeistari 2021, sem hafði vinningsforystu þegar tvær umferðir voru eftir „var heldur ófarsæll í lokaumferðunum og tapaði báðum skákum sínum. Elsa María vann hinsvegar báðar skákir sínar og mótið sjálft með sjö og hálfum vinningi af níu,“ segir á síðu Skákfélags Akureyrar

Elsa María, eina konan sem tók þátt í mótinu, varð jöfn Stefáni Bergssyni, „hinum brottflutta, en aðeins hærri á stigum, enda vann hún innbyrðis skák þeirra eftir að hafa varist vel í lakari stöðu. Þórleifur hafnaði svo í þriðja sæti með sex og hálfan vinning. Alls skráðu sig 32 keppendur til leiks og má sjá lokastöðuna hér á chess-results, svo og öll úrslit í einstökum skákum.“

Áskell Örn Kárason, Norðurlandsmeistari 2022, Smári Ólafsson og Eymundur Eymundsson fengu allir 6 vinninga.

Keppendur voru mun fleiri en undanfarin ár. Tefldar voru 9 umferðir með atskákarfyrirkomulagi.

Stærsti sigur konu á móti allra kynja?

Á vef Skákfélagsins segir ennfremur: „Skrásetjara grunar að þetta sé einn stærsti, ef ekki sá allra stærsti sigur sem kona hefur unnið á móti sem opið er öllum kynjum.

Unga kynslóðin lét sig ekki vanta á mótið enda var líka telft um meistaratitil í unglingaflokki (f. 2007 og síðar) Í þeim aldursflokki fékk Sigurbjörn Hermannsson flesta vinninga, eða fimm og hálfan, en þar sem henn er búsettur utan Norðurlands gat hann ekki hreppt titilinn. Næstir honum með fimm vinninga komu þeir Sigþór Árni Sigurgeirsson og Markús Orri Óskarsson og vann sá fyrrnefndi titilinn á betri oddastigum. Þriðju varð svo Tobias Matharel.

Þessum viðburði lauk svo að venju með hraðskákmóti. Þar fékk hinn brottflutti Stefán Steingrímur átta vinninga af níu, en Þóleifur og Áskell Örn Kárason komu næstir honum með sjö vinninga. Þórleifur hafði betur eftir oddastigaútreikning og er því Hraðskákmeistari Norðlendinga þetta árið. Keppendur voru 23.“

Öll úrslit á chess-results.