Ekki vísbendingar um að unglingum fækki
Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og rannsóknaprófessor í byggðafræði við Háskólann á Akureyri, segir engar sterkar vísbendingar um að unglingum á framhaldsskólaaldri muni fækka á Akureyri í náinni framtíð.
Fækkun nemenda hefur verið nefnd í tengslum við hugmyndir um sameiningu eða aukið samstarf framhaldsskóla, meðal annars á Akureyri. Karl Frímannsson, skólameistari MA kom meðal annars inn á það í ávarpi sínu við brautskráningu nýstúdenta frá MA um helgina.
Þóroddur hefur legið meira yfir mannfjöldaþróun á Akureyri og Norðurlandi öllu en flestir aðrir, og fjallaði m.a. um þau mál í bókinni Byggðafesta og búferlaflutningar á Íslandi sem kom út fyrir skömmu.
„Það eru engar sterkar vísbendingar um að unglingum á framhaldsskólaaldri muni fækka á Akureyri í náinni framtíð. Líkt og undangenginn áratug verða tæplega þrjú hundruð 16 ára unglingar á Akureyri næsta áratuginn eða svo,“ svarar Þóroddur, spurður hvort fækkun barna á Akureyri væri ógnun við grundvöll framhaldsskólanna tveggja. „Eftir það koma nokkrir fæðingarárgangar sem eru minni en við höfum átt að venjast en það er engin sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af því hvað framhaldsskólana varðar. Almennt hefur fæðingartíðni á Íslandi farið lækkandi en á móti kemur að hlutfall barna sem fædd eru erlendis hefur farið hækkandi.“
Þóroddur Bjarnason prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og rannsóknaprófessor í byggðafræði við Háskólann á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
„Á Akureyri hefur fólksfjölgun verið tiltölulega jöfn og samfelld síðustu 120 árin og það á ekki síst við um fólk á barneignaraldri. En því til viðbótar hefur aðflutningur barna til Akureyrar jafnan verið talsvert meiri en brottflutningur og fyrir vikið fjölgar jafnt og þétt í hverjum árgangi frá fæðingu til 16 ára aldurs,“ segir Þóroddur.
„Síðasta áratuginn hefur fjöldi 16 ára barna á Akureyri þannig að meðaltali verið 10% hærri en samsvarandi fjöldi barna á fyrsta ári 16 árum fyrr. Sem dæmi má nefna að þann fyrsta janúar 2023 voru sextán ára Akureyringar 297 talsins, en sextán árum fyrr voru aðeins 253 börn á fyrsta ári á Akureyri. Þetta er ekkert bundið við Akureyri – fjöldi aðfluttra og brottfluttra hefur miklu meiri áhrif á mannfjöldaþróun en fjöldi fæðinga og dauðsfalla, og skammtímasveiflur í fjölda fæðinga hafa óveruleg áhrif á mannfjöldaþróunina.“
Þóroddur segir vel mega vera að aðrar mikilvægar ástæður séu fyrir því að sameina framhaldsskólana á Akureyri „og það er augljóslega mikill pólitískur þrýstingur á fækkun framhaldsskóla, en framtíðarfjöldi framhaldsskólanema á Akureyri mun ekki ráðast af fæðingartíðninni, þar eru aðrir kraftar að verki. Fyrirsjáanleg hnignun Akureyrar eftir 120 ára samfellt vaxtarskeið gæti þannig verið ástæða til að sameina skólanna til að bregðast við skyndilegri fólksfækkun en á þessari stundu eru engar skýrar vísbendingar um að slík hnignun Akureyrar sé í vændum, þvert á móti eru allar líkur á áframhaldandi vexti hennar.“