Fara í efni
Fréttir

„Ekki vera partur af vandamálinu – vertu partur af lausninni“

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Mikil og góð stemning var á troðfullu Ráðhústorgi á Akureyri í morgun á baráttufundi sem fram fór í tilefni kvennafrídagsins.

Ásta F. Flosadóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs hjá Þingeyjarsveit, flutti þar magnað ávarp sem birt er í heild á Akureyri.net.

„Hér er á ferðinni samfélagsleg meinsemd sem aðeins samfélagið sem heild getur breytt. Ef allar konur og kvárar landsins vinna einn karlmann á okkar band hver um sig, þá er jafnrétti náð. Spáið í það,“ sagði Ásta meðal annars um misréttið í samfélaginu. „Kæra manneskja, hvers kyns sem þú ert; ekki vera partur af vandamálinu – vertu partur af lausninni.“

Gleði en líka sorg og reiði

„Það eru blendnar tilfinningar sem vakna á þessum degi, 24. október, kvennaverkfallsdegi. Það er gleði yfir því hvað við erum margar að taka þátt, en líka reiði og sorg yfir því að við þurfum að gera það. Það eru 48 ár frá kvennafrídeginum fræga 1975 og þó margt hafi breyst til batnaðar þá erum við stödd hér,“ sagði Ásta meðal annars.

Frá fundinum á Ráðhústorgi í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Öll erum við manneskjur

„Og af hverju erum við hér? Búum við ekki við mesta jafnrétti kynja í gjörvallri veröld? Hér mega konur kjósa, mennta sig, eiga bankareikninga og meira að segja keyra bíl! Það er sko ekki þannig allstaðar! Er þetta ekki bara vanþakklæti, já og frekja? Getum við ekki bara róað okkur?“ spurði hana og svaraði:

„Svarið er NEI. Þó staðan sé verri annarstaðar, þýðir það ekki að við eigum að sætta okkur við mismunun. Hvorki á grundvelli kyns né annars. Öll erum við manneskjur, það skiptir ekki máli hvaða tól við höfum í nærbuxunum. Réttur okkar til sömu launa og framlag okkar til samfélagsins er óháð slíku smáatriði. Eða ætti að minnsta kosti að vera það.“

Ásta F. Flosadóttir talar á Ráðhústorgi í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Óþolandi og óásættanleg staða

„48 ár. Og hér erum við. Sama hvað hver segir, staðan er óþolandi og óásættanleg. Það verður að jafna leikinn. Fyrir ungu stúlkurnar og fyrir drengina okkar. Fyrir börnin og ófæddar kynslóðir. Þetta er bara ekki lengur í boði!“ sagði Ásta.

„Það sem vekur manni vonir er þessi dagur. Samstaða kvenna og kvára og stuðningur þeirra karla sem átta sig á óréttlætinu, þeirra karla sem ekki eru helteknir af eigin forréttindablindu. Elsku strákarnir okkar. Þessi hópur karla er stór, hann fer stækkandi, en hann mætti alveg hafa hærra.“

Ásta nefndi ýmis dæmi úr lífi sínu, meðal annars þessi:

  • Ég er fimm ára og einn frændi minn ætlar að kjósa Vigdísi sem forseta af því hún er svo ,,hugguleg“. Hinir karlarnir hlægja. Ég veit ekki hvað ,,hugguleg“ þýðir og held að það sé eitthvað ljótt. Ég spyr ömmu. Hún útskýrir og segist svo halda að Vigdís verði prýðis forseti þrátt fyrir að vera hugguleg, henni sé svo margt gefið.
  • Ég klára háskólapróf og fer að kenna. Eiginmaðurinn er að vinna verkamannavinnu. Við tökum alvöru hjónarifrildi yfir launaseðlunum okkar. Honum finnst hann hafa brugðist sem fyrirvinna því ég er með hærri laun en hann.
  • Ég sit í sveitarstjórn og við erum að ráða starfsmann í yfirmannsstöðu. Mikil umræða er um hve marga óunna yfirvinnutíma eigi að setja á ráðningarsamning viðkomandi. Ég geri athugasemd við þetta því ég veit ekki til þess að skólastjórinn eða leikskólastjórinn, báðar konur, séu með einhverjar óunnar yfirvinnustundir, en ég veit að báðar vinnum við ógreidda yfirvinnu. En þarna þarf að setja inn tíma til þess að hækka viðkomandi í launum. Hann er að sjálfsögðu með typpi.

Meðal spurninga sem Ásta varpaði fram er þessi, sem sennilega margir hafa velta fyrir sér – um óskiljanlegt atriði:

  • Af hverju gerist það ekki sjálfkrafa að lífeyrisréttindi deilist milli hjóna? Þessara réttinda er aflað sameiginlega og ættu að nýtast þeim sem eftir stendur. Fjöldi kvenna hrekkur upp við vondan draum þegar makinn fellur frá og lífeyrisréttindi hans flytjast ekki á milli að fullu. Réttindi sem hún hefur svo sannarlega auðveldað honum að eignast, á kostnað sinnar eigin réttindasöfnunar. Kallarðu þetta jafnrétti?

Smellið hér til að lesa ávarp Ástu F. Flosadóttur

MEIRA SÍÐAR Í DAG