Fara í efni
Fréttir

Ekki sammála en afstaða Geirs kemur ekki á óvart

Ingvar Már Gíslason, fyrrverandi formaður KA, segir menn ekki þurfa að vera sammála um hvort og þá hvenær Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA) eigi að hafa skoðun á uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Hvers vegna þegir ÍBA þunnu hljóði, spurði Ingvar í gær þegar málið bar á góma. Formaður ÍBA kvaðst þá ekki vita um hvað bandalagið ætti að tjá sig nú, skýrsla um uppbyggingu í bænum hefði verið unnin án nokkurrar aðkomu bandalagsins.

Forsaga málsins er sú að Sindri Kristjánsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, skrifaði á Facebook í gær að forsvarsmenn eins íþróttafélags á Akureyri hefðu í aðdraganda kosninga til bæjarstjórnar í vor tekið mjög skýra afstöðu gegn uppbyggingu hjá öðrum íþróttafélögum og að í þeirri herferð hafi forsvarsmenn og málsmetandi félagsmenn íþróttafélagsins m.a. látið hafa eftir sér að atkvæði greitt tilteknu framboði væri atkvæði greitt gegn hagsmunum umrædds félags.

Þarna átti Sindri við Þór og Samfylkinguna.

Í færslu við skrif Sindra sagðist Ingvar Már taka undir hvert orð og kvaðst myndu vilja bæta miklu við. Sagði svo: „Það sorglega er að þetta virðist virka og mikilli vinnu hent til hliðar. Það verður allavegna fróðlegt að fylgjast með þegar fjárfestingaáætlun næstu 5 ára verður lög fram samhliða fjárhagsáætlun. Merkilegt nokk að ÍBA sem er varðhundur íþróttafélaganna þegir þunnu hljóði, hvers vegna skyldi það vera?“

Akureyri.net bauð Ingvari að tjá sig um málið í kjölfar svars Geirs Kristins, og vegna þess sem Ingvar skrifaði við færslu Sindra í gær, að hann myndi vilja bæta miklu við,

Svar Ingvars í heild fer hér á eftir:

Afstaða formanns ÍBA kemur þannig séð ekki á óvart. Ég er hins vegar ekki sammála honum. Það er þó þannig, að við þurfum ekki að vera sömu skoðunar um það, hvort og þá hvenær, ÍBA eigi að hafa skoðun á þessum málum. ÍBA er ekkert annað en skel um aðildarfélög þess og pólitísk stefna hverju sinni hlýtur að skipta máli fyrir framgang íþróttauppbyggingar í bænum. Enda er það nokkuð skýrt að meðal verkefna ÍBA er að hafa frumkvæði um eflingu íþróttastarfs, eiga samstarf við bæjaryfirvöld sem og að framfylgja íþróttastefnu Akureyrarbæjar og ÍBA.

ÍBA og aðildarfélög þess voru lykilþátttakandi við gerð íþróttastefnu Akureyrarbæjar og ÍBA til ársins 2022. Út úr þeirri vinnu íþróttafélaganna kom einfaldlega mjög skýr afstaða um að uppbygging mannvirkja verði unnin samkvæmt langtíma þarfagreiningu, félaga og skóla sem verði forgangsraðað í samvinnu ÍBA og Akureyrarbæjar. Fyrir mér hefur þetta alltaf verið kjarni málsins og algjörlega óháð því hver niðurstaðan var að hálfu þeirrar nefndar sem bærinn skipaði um uppbyggingu mannvirkja.

ÍBA hinsvegar fékk það verkefni að koma með tillögu um hvernig standa skuli að málum í samræmi við íþróttastefnuna í lok árs 2018. Ársþing ÍBA ákvað að skipa 5 manna aðgerðaráætlunarnefnd sem ég tók sæti í ásamt öðrum formönnum aðildarfélaga. Vinnuhópurinn skilaði hinsvegar ekki niðurstöðu. Ég tel það fyrst og fremst hafa verið vegna þess að verkefninu fylgdi ekkert fjármagn sem og að vinnuhópnum fannst verkefnið eiga heima innan stjórnmálanna.

Það sem liggur fyrir er að það eru mjög skiptar skoðanir um uppbyggingarskýrsluna og það er mjög eðlilegt að eiga heilbrigð skoðanaskipti um niðurstöðu starfshópsins. Skýrslan er á margan hátt mjög góð og ég hvet alla til að lesa hana, hún dregur fram hversu mikil þörf hefur byggst upp á síðustu árum og hún dregur líka fram vilja sem og forgangsröðun íþróttafélaganna sjálfra um uppbyggingu, bæði háð og óháð gildandi samningum við Akureyrarbæ. Skoðun mín, að langtímasýn sé afar mikilvæg fyrir íþróttahreyfinguna, er ólíkleg til að breytast en nú óttast ég mjög að verið sé að hverfa frá þeirri stefnu sem ÍBA og aðildarfélög þess ásamt Akureyrarbæ settu sér í desember 2017. Það gerir það að verkum að fyrirsjánleiki fyrir íþróttafélögin, sveitarfélagið og samfélagið verður lítill sem enginn. Það fer kannski best á því að færa þessa umræðu til og taka hana innan aðildarfélaganna enda liggur fyrir að vinna við nýja lýðheilsustefnu er hafin og bind ég miklar vonir við að hún verði metnaðarfull.

Ingvar Már Gíslason