Fara í efni
Fréttir

Ekki kaldara svo seint í júní í 30 ár!

Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndari á leik KA og Fram í bikarkeppninni í knattspyrnu í dag. Sem betur fer ekki hefðbundinn klæðnaður í júnílok! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

„Hún er fremur óvenjuleg þessi kuldatíð sem ríkt hefur frá því fyrir helgi. Trúlega kaldasti kaflinn á öldinni sem gerir eftir sólstöður (21. júní),“ skrifar Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, á Facebook síðu sína í kvöld. Þar segir hann að ekki hafi verið jafn kalt á Akureyri svo seint í júnímánuði í 30 ár.

Á Akureyri var meðalhiti sólarhringsins þessi, segir Einar:

  • Fimmtudag 23. júní: 5,5°C
  • Föstudag 24. júní: 5,6°C
  • Laugardag 25. júní: 5,9°C
  • Sunnudag 26. júní: 5,4°C

„Svo kaldir dagar þegar komið er þetta langt fram á sumar hafa ekki orðið á Akureyri í 30 ár. 1997 var líka kalt um þetta leyti, en sjónarmunn hærri hiti,“ skrifar Einar.

„Seint í júní 1994 var álíka kaldur dagur og nú en hann var stakur. Í kjölfar Jónmessuhretsins 1992 sem áður hefur verið greint frá, var klárlega kaldara en nú 2022.“ Hann segir síðan: „Óvenjuleg kuldatíð, en ekki einsdæmi!“

Mynd sem Einar birti á Facebook síðu sinni: Kortið sýnir hita í 850 hPa ( +i 1.300 m. hæð), 26. júní kl. 00.