Ekkert ljós – ekkert hjarta
Götuviti eða umferðarljós, eftir því hvað fólk vill kalla það, hefur staðið stakur á milli Hofs og Torfunefsbryggju, með það sem sitt aðalhlutverk að auka öryggi ferðafólks sem vill mynda rauða hjartað sem umferðarljósin á Akureyri eru orðin fræg fyrir. Margoft má sjá fólk úti á umferðareyjum að taka myndir, nota tækifærið þegar rautt ljós logar, en mögulega ekki alltaf hugað að eigin öryggi eða annarra, gangandi eða akandi.
Myllumverkið #heartsofakureyri og rautt hjarta eru á annarri hlið staursins, en á hinni eru hefðbundin umferðarljós, nema bara það er ekki kveikt á perunni. Myndir: Haraldur Ingólfsson.
Þessi staur sem stendur stakur á flötinni sunnan við Hof er eingöngu ætlaður fyrir myndasmiði, gegnir engu hlutverki í umferðinni. Hann hefur þó ekki mætt í vinnuna í nokkrar vikur samkvæmt ábendingu sem Akureyri.net fékk frá bæjarbúa. Ljósið logar nefnilega ekki. Akureyri.net hefur leitað eftir skýringu, en ekki fengið upplýsingar um ástæður þess.
Ekkert ljós – ekkert hjarta.