Fara í efni
Fréttir

Ekkert kaffihús í Hofi í bili

Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir

Kaffihúsinu Garún í menningarhúsinu Hofi hefur verið lokað. Síðasti opnunardagur kaffihússins var 31. janúar.

Auglýst hefur verið eftir nýjum rekstararaðila og rann umsóknarfrestur út í janúar. Að sögn Kristínar Sóleyjar Björnsdóttur, viðburðastjóra Menningarfélags Akureyrar, er verið að yfirfara umsóknirnar sem bárust. Þar til nýr veitingaaðili hefur störf í húsinu mun Múlaberg sjá um veitingasölu á viðburðum, fundum og ráðstefnum.

Margir hafa spreytt sig á veitingarekstri í menningarhúsinu, nú síðast Sölvi Antonsson sem hóf rekstur á kaffihúsinu Garún í apríl í fyrra. Garún bauð upp á þjóðlegan mat, súpur, rétt dagsins, brauðtertur og fleira. Þar á undan rak Silja Björk Björnsdóttir kaffihúsið Barr í menningarhúsinu. Barr var starfandi í um átta mánuði og þar á undan var þar veitingastaðurinn Eyrin sem var opnaður haustið 2019.