Ekið á kúahóp – þrjár kýr drápust, aflífa varð eina
Þrjár kýr drápust aðfararnótt sunnudags þegar bíl var ekið á kúahóp við bæinn Klauf í Eyjafjarðarsveit og aflífa þurfti eina til. Fernt var í bílnum og var einn farþegi fluttur til skoðunar á sjúkrahúsinu á Akureyri með minniháttar meiðsli. Þetta kemur fram í frétt á mbl.is í morgun.
„Þetta var mikið áfall. Eins og kemur stundum fyrir þá opna kýr hlið og í þessu tilfelli brutu þær upp hurð hjá okkur og sluppu út. Þetta voru allar kýrnar á bænum, 70 talsins. Við hjónin vorum ásamt tengdapabba alla nóttina að reyna að koma kúnum inn. Okkur hafði tekist að koma öllum nema tíu inn. Þær voru nálægt veginum,“ segir Hermann Ingi Gunnarsson, bóndi í Klauf, í samtali við mbl.is.
Bíllinn er ónýtur og mikil mildi þykir að að ekki hafi orðið slys á fólki. Hermann Ingi segir að þau sem voru að smala kúnum hafi verið í stórhættu.
Smellið hér til að sjá frétt mbl.is
Í gær ekið á kú við Jónasarlund við þjóðveg 1 um Öxnadal. Ökumaður fór af vettvangi, lögregla lýsti eftir honum og óskaði eftir að heyra frá mögulegum vitnum að atvikinu. Kúna varð að aflífa.
Smellið hér til að sjá frétt Akureyri.net í gær