Eitt ár að baki – takk fyrir móttökurnar!
Eitt ár var á laugardaginn síðan undirritaður endurreisti Akureyri.net, frétta- og mannlífsvef þar sem fjallað er um hvaðeina sem tengist Akureyri og Akureyringum.
Móttökur voru frábærar; bæjarbúar, Akureyringar annars staðar í heiminum og aðrir áhugamenn um höfuðstað Norðurlands og næsta nágrenni, tóku framtakinu einstaklega vel og dyggir lesendur urðu strax fjölmargir. Nokkur þúsund manns lesa vefinn dag hvern, mest hafa 12.565 farið inn á Akureyri.net á einum degi og þann dag voru flettingar 154.805. Það þykir með nokkrum ólíkindum.
Auglýsendur hafa sýnt vefnum mikinn áhuga og þakkir fólks, hvatningarorð og ábendingar um áhugavert efni eru ómetanlegar.
Nokkrar fréttir eða greinar af einhverju tagi hafa birst á hverjum einasta degi síðan föstudaginn 13. nóvember 2020; alls 2.865 – 7,8 að meðaltali á dag.
Rekstur Akureyri.net er fjármagnaður með auglýsingum og styrkjum.
Um leið og ég þakka viðbrögðin og velvildina hvet ég alla sem vettlingi geta valdið til að styðja við bakið á miðlinum.
Margt smátt gerir eitt stórt!
Vonandi tekst að halda fjölmiðlinum gangandi til frambúðar; mér finnst samfélagið eiga það skilið!
Til að styrkja Akureyri.net er hægt að smella HÉR eða á tengil efst til hægri á forsíðunni.
Bestu kveðjur!
Skapti Hallgrímsson,
ritstjóri Akureyri.net.
Hér að neðan má sjá fáein sýnishorn af þeim 2.865 fréttum, greinum eða pistlum sem birst hafa á Akureyri.net síðan 13. nóvember 2020.