Fara í efni
Fréttir

Einstakt kort bætist í Schulte safnið

Einstakt kort Johannes Van Keulin frá 1701. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri, Haraldur Þór Egilsson safnstjóri Minjasafnsins, Karl-Werner Schulte og Sigfús Karlsson, formaður stjórnar Minjasafnsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þjóðverjinn Karl-Werner Schulte færði Akureyrarbæ 31 Íslandskort að gjöf á dögunum, nokkur þeirra afar fágæt og eitt sem hann segir einstakt. Í Schulte safni Akureyrarbæjar, sem varðveitt er á Minjasafninu, eru þar með hvorki fleiri né færri en 174 Íslandskort. Merkasta safn Íslands sem til er, segir hann.

Dr. Karl-Werner og eiginkona hans heitin, dr. Gisela Schulte-Daxbök, hófu að safna Íslandskortum fyrir margt löngu. Þau elstu eru frá því snemma á 16. öld og hin yngstu voru gerð 1846. Hjónin heilluðust snemma af Íslandi og Akureyri sérstaklega, og fyrir tæpum áratug varð að veruleika draumur sem þau höfðu átt í töluverðan tíma: þau færðu Akureyrarbæ safn sitt að gjöf, með loforði um að bætt yrði við kortum síðar meir.

Töfrandi kort – stórmerkilegt 

Karl-Werner og Gisela gáfu Akureyrarbæ fyrst 76 stórmerkileg Íslandskort árið 2014 og síðan hafa því 98 bæst við. Karl-Werner segir sum kortanna sem hann afhenti að þessu sinni, frá 17. og 18. öld, ekki sérlega verðmæt eða merkileg í sjálfu sér, en hann vilji fyrir alla muni að í safninu verði öll kort, eða því sem næst, sem gerð hafi verið.

Merkilegasta kortið sem Karl-Werner færði Akureyringum að þessu sinni er úr smiðju Hollendingsins Johannes Van Keulin (1654 - 1715), upphafsmanns ættarveldis kortagerðarmanna sem sinntu faginu í nokkrar kynslóðir. Þar er um að ræða sjókort frá 1701.

Eina eintakið

Karl-Werner keypti umrætt kort Van Keulin á uppboði í New York í nóvember á síðasta ári. Sérfræðingur á þessu sviði tjáði honum að kortið væri hið eina úr upprunalegri útgáfu sem nokkru sinni hefði verið til sölu á markaði.

„Þetta er töfrandi kort, stórkostlegt,“ segir Karl-Werner við Akureyri.net. „Van Keulin feðgar voru mjög lengi í fararbroddi í sjókortagerð.“

Kortið hefur aldrei birst í hefðbundnum kortabókum vegna þess hve stórt það er, en það hefur augljóslega verið notað í siglingum, að sögn gefandans, að öllum líkindum aðallega við hvalveiðar og vegna viðskipta við Arkhangelsk í norðvesturhluta Rússlands. „Brúnir fletir eru hér og þar á kortinu, mjög líklega til þess að hylja viðgerðir eða fingraför,“ segir Karl-Werner.

Önnur stórmerkileg kort sem Karl-Werner kom með að þessu sinni eru eftir Hollendinginn Janssonius (1588 - 1664), fallega skreytt sæskrímslum, kort Svíans Olaus Magnus (1490 - 1557) og fantasíukort Ítalans Zeno frá því um miðja 16. öld.

Hjónin færa Akureyrarbæ fyrstu Íslandskortin árið 2014. Frá vinstri: Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri, Karl-Werner Schulte, Gisela Schulte-Daxbök og Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri á Minjasafninu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Merkasta safn Íslandskorta

Schulte-hjónin eignuðust fyrsta kortið árið 1975, fyrir tæplegra hálfri öld. Fyrst í stað einblíndu þau á kort af Íslandi og hafinu í kring, en þegar þau höfðu eignast flest sem til er af því tagi, fóru þau að safna kortum af Íslandi í stærra samhengi. Safninu er nú skipt í fjóra megin flokka: A) Ísland, B) Ísland og nærliggjandi lönd og eyjar, C) Ísland og Skandinavía og D) Ísland á heimskautasvæðinu.

Karl-Werner Schulte er ástríðufullur safnari og nefndi í heimsókn sinni að í Minjasafninu á Akureyri væri nú merkasta safn Íslandskorta sem fyrirfyndist. „Ég veit til dæmis bara um tvö kort af Íslandi einu sem gerð hafa verið og vantar í okkar safn.“ Hann kveðst halda áfram að leita en „ég veit að lítil sem engin von er til þess að finna þau.“

Mikilvægt að sýna kortin

Einungis tvö stór söfn Íslandskorta eru í heiminum, á Minjasafninu á Akureyri og Landsbókasafni Íslands. Elst kort beggja safna er hið sama, frá 1544. Karl-Werner kveðst hafa borið söfnin saman fyrir tveimur árum; það sem til væri frá 1544 til 1846, þegar yngsta kort Schulte hjónanna var gert. Hann komst að því að fleiri sjaldgæf kort væru á Akureyri og safnið þar stærra.

Fjöldi korta í söfnunum á árunum 1544 til 1847 er nánast sá sami en á Akureyri eru 52 kort sem ekki er að finna í kortasafni Landsbókasafnsins. Þegar Karl-Werner bar söfnin saman „voru 130 kort hér á Akureyri, nú eru þau orðin 174 svo tími er kominn til að bera söfnin saman á ný,“ segir hann.

Eitt af skilyrðunum sem Schulte hjónin settu á sínum tíma var að kort úr safni þeirra yrðu sýnd reglulega, enda skipti miklu máli að almenningi gefist kostur á að skoða gersemarnar. Hluti safnsins hefur því verið til sýnis árlega og næsta sumar, þegar áratugur verður liðinn frá því Akureyringar eignuðust fyrstu kortin, er stefnt að því að setja upp stóra Íslandskortasýningu. 

Karl-Werner Schulte og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. 

Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Karl-Werner Schulte, Ragna Gestsdóttir, safnfræðslufulltrúi Minjasafnsins, Hörður Geirsson, safnvörður ljósmyndasafns Minjasafnsins, Almarr Alfreðsson, verkefnastjóri menningarmála hjá Akureyrarbæ, Hulda Sif Hermannsdóttir, aðstoðarmaður bæjarstjóra, og Sigfús Karlsson, formaður stjórnar Minjasafnsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.