Fara í efni
Fréttir

Einn þáttur á dag og hnífjafnt kynjahlutfall

Fastir starfsmenn á N4, frá vinstri: Rakel Hinriksdóttir, Kári Liljendal Hólmgeirsson, Kristín A. Kristjánsdóttir, Tjörvi Jónsson, Heiðrún Sigurðardóttir, Dagný H. Valbergsdóttir , Stefán F. Friðriksson, María Björk Ingvadóttir, Karl Eskil Pálsson, Elva Ýr Kristjánsdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sjónvarpsstöðin N4 framleiðir á árinu og frumsýnir 388 þætti, sem er svo að segja sami fjöldi og á síðasta ári. Fyrir utan bæjarstjórnarfundi á Akureyri, sem stöðin tekur upp og sendir út, er framleiddur einn þáttur að meðaltali á dag allt árið.

Áhugavert er að hnífjafnt kynjahlutfall er í hópi hátt í 1200 viðmælenda í þáttum stöðvarinnar á árinu. Raunar má segja það sama um starfsmenn N4; 20 starfa á stöðinni, fastráðnir og sem fastir verktakar, 10 konur og 10 karlar á aldrinum 19 ára til 70.

María Björk Ingvadóttir framkvæmdastjóri N4 segir að árið hafi á margan hátt verið fyrirtækinu hagstætt, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika sem fylgdu heimsfaraldrinum. Hún segir jafnframt að verkefnastaða næsta árs sé góð.

„N4 er ekki stór stöð og ég er afskaplega stolt af framleiðslu ársins. Við allar þessar frumsýningar bætast svo fjölmörg framleiðsluverkefni sem við sinntum á árinu, sá liður í starfseminni hefur vaxið jafnt og þétt á liðnum árum. Covid-19 setti auðvitað stórt strik í reikninginn hjá okkur, rétt eins og hjá flestum öðrum. Rekstur einkarekinna fjölmiðla hefur verið afar þungur í mörg ár en við á N4 búum svo vel að hafa trausta bakhjarla og viðskiptavini og það skiptir miklu máli á slíkum tímum,“ segir María Björk við Akureyri.net. „Þetta rekstrarár hefur verið á margan hátt gott, við búumst við því að reksturinn verði á núlli og það finnst mér nokkuð vel gert, enda með úrvals starfsfólk og verktaka. Verkefnastaðan hjá okkur hefur líklega aldrei verið betri á þessum árstíma, nokkur stór verkefni bíða okkar og sum þeirra hafa dregist vegna heimsfaraldursins. Ég er þess vegna nokkuð bjartsýn á komandi ár, þótt rekstrarumhverfið sé krefjandi.“

Áhorfið rýkur upp

„Undanfarin ár höfum við gert þætti í samstarfi við sveitarfélögin á Vesturlandi, Norðurlandi vestra og Austurlandi. Þessir samningar skipta okkur töluverðu máli og síðasta haust bættust svo Vestfirðir við. Sú viðbót var afar kærkomin, fyrstu þættirnir hafa verið sýndir og nokkrir eru núna í vinnslu. Við erum í viðræðum við nokkra aðila um þáttagerð, sum verkefnin eru vel á veg komin og önnur á byrjunarreit, en eins og ég segi þá hefur verkefnastaðan líklega aldrei verið eins góð og akkúrat núna og fyrir það er ég eðlilega mjög þakklát.“

María Björk segir áhorf hafa aukist gríðarlega á árinu. „Samkvæmt tölum frá Símanum úr tímaflakki hefur áhorfið á N4 þar aukist um 90% milli ára fyrstu ellefu mánuði ársins og stærsti mánuðurinn er eftir. Svipaða sögu er að segja um Facebook, þar erum við að sjá gríðarlega aukningu, enda erum við með mjög stóra Facebooksíðu.“

Langflestir koma fram í Föstudagsþættinum, 441, þar eru 234 konur og 207 karlar. Af öðrum þáttum má nefna Að norðan þar sem 150 Norðlendingar hafa komið fram, 110 Austfirðingar voru viðmælendur í Að austan og tæplega 100 í Að vestan.

Jafnt kynjahlutfall

„Við höfum í mörg ár haldið nákvæmt bókhald yfir fjölda viðmælenda og kynjaskiptingu. Þetta árið verða viðmælendur samtals 1.160, karlarnir 578 og konurnar 582. Jafnara getur þetta varla orðið og svona hefur skiptingin reyndar verið undanfarin ár. Og það er líka gaman að segja frá því að kynjaskiptingin er hnífjöfn hvað varðar starfsfólk og helstu verktaka. Hlutverk fjölmiðla er að segja sögur af fólki og þá skiptir máli að kynjaskiptingin sé sem jöfnust. Það er bara þannig að við á N4 getum borið höfuðið hátt þegar þessar tölur eru skoðaðar, tölurnar segja okkur allt í þeim efnum,“ segir María Björk Ingvadóttir framkvæmdastjóri.