Fara í efni
Fréttir

Einn lést í snjóflóðinu

Einn lést í snjóflóðinu í Svarfaðardal í gærkvöldi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra.

„Bandarísku ferðamennirnir sem lentu í snjóflóði í Svarfaðardal eru allir fæddir 1988. Þeir eru allir vanir fjallamenn og voru vel búnir. Allir hlutu þeir alvarlega áverka í slysinu og var einn þeirra látinn þegar að var komið. Hinir voru fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri og annar þeirra síðan á Landspítalann. Frekari upplýsingar um afdrif hans liggja ekki fyrir hjá lögreglu á þessu stigi,“ segir í tilkynningunni.

„Viðbragðsteymi Rauða krossins var kallað út og fóru nokkrir félagar þess til Dalvíkur til að líta til með þeim viðbragðsaðilum sem fyrstir komu á vettvang.

Nokkurn tíma tók að afla upplýsinga um nánustu aðstandendur þess látna í Bandaríkjunum. Er þær upplýsingar lágu fyrir í nótt var óskað eftir aðstoð hjá sendiráði Bandaríkjanna við að tilkynna aðstandendum um andlátið. Maðurinn sem lést var einhleypur og barnlaus.

Margir viðbragðsaðilar komu að þessari aðgerð og þökkum við hjá lögreglunni fyrir gott samstarf, nú sem endranær.

Hefðbundin slysarannsókn heldur áfram en ekki er hægt að segja hvenær niðurstöður hennar liggja fyrir.“