Einkarekstur kemur vel til greina í heilsugæslu
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir vel koma til greina að önnur heilsugæslustöðvanna tveggja, sem teknar verða í notkun á næstu misserum á Akureyri, verði einkarekin. Slíkur rekstur hafi gefist vel á höfuðborgarsvæðinu en engin ákvörðun hafi þó verið tekin.
Ráðherra sagði þetta í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi gær þegar hann svaraði Berglindi Ósk Guðmundsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem spurði hvort ráðherra hygðist bjóða út rekstur annarrar stöðvarinnar.
„Af því að háttvirtur þingmaður kom inn á mönnunarvandann þá er þetta tvíþætt mál. Það eru alltaf áhyggjur þeirra sem eru að reka heilsugæslu fyrir að missa frá sér mannskap. Við erum í raun og veru alltaf í samkeppni um sama takmarkaða mannauðinn,“ sagði Willum.
Ótvíræðir kostir
„Reynslan af einkareknum heilsugæslustöðvum hefur verið góð og njóta þær almennt meira trausts en aðrar heilsugæslustöðvar, sbr. þjónustukönnun Maskínu fyrir allar 19 heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2019. Þar kom fram að allar fjórar einkareknu heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins voru ofarlega á lista yfir þær heilsugæslustöðvar sem nutu mests trausts, en þær voru allar meðal sjö efstu heilsugæslustöðva í könnuninni. Í sömu könnun var spurt um ánægju viðskiptavina með þá þjónustu sem heilsugæslustöðvarnar buðu upp á og var niðurstaðan aftur afgerandi, en einkareknu heilsugæslustöðvarnar fjórar röðuðu sér í fjögur efstu sætin,“ sagði Berglind Ósk á Alþingi í gær.
Samkvæmt ákvörðun þáverandi heilbrigðisráðherra frá 7. nóvember 2019 verða opnaðar tvær nýjar starfsstöðvar heilsugæslu á Akureyri. Í þingsályktuninni segir að með því að bjóða út rekstur annarrar heilsugæslustöðvarinnar sé tryggt að heimilislæknum standi einnig til boða að reka eigin þjónustu eins og aðrir sérfræðilæknar hafa kost á. Leiða megi líkur að því að auknir valmöguleikar hvað varðar rekstrarform hafi í för með sér að auðveldara verði að fá heimilislækna til starfa á Akureyri, en oft á tíðum hefur reynst erfitt að fá sérfræðinga, hvort sem er á sviði læknisfræði eða annarra sérfræðigreina, til starfa á landsbyggðinni og því mikilvægt að gera starfsumhverfi þeirra eins fjölbreytt og aðlaðandi og unnt er.
„Kostir einkarekinna heilsugæslustöðva eru ótvíræðir og því full ástæða til þess að bjóða ekki einungis upp á þann kost á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig tryggja landsbyggðinni möguleika á að nýta sér þjónustu þeirra,“ segir Berglind Ósk.