Eining-Iðja minnir á ábyrgð launþega
Verkalýðsfélagið Eining-Iðja hvetur félagsmenn til þess að fylgjast vel með launaseðlum sínum. Það sé á ábyrgð launþega að gera athugsemdir og fá leiðréttingu ef seðilinn er ekki réttur.
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir að félagið sé alltaf að hamra á réttindum og skyldum á vinnumarkaði en vildi núna líka minna á ábyrgðina sem fólk ber sjálft. „Vegna margra mála sem koma inn á borð félagsins ákváðum við að vekja máls á þessu því greinilegt er að of margir eru ekki að átta sig á eigin ábyrgð. Við verðum öll sem eitt að bera ábyrgð á því að fylgjast með að okkar réttur sé virtur,“ segir Björn.
Formaðurinn segir líka mikilvægt að fólk viti á hvaða launum það eigi að vera. „Það er á þína ábyrgð að kanna hvort þú fáir rétt laun miðað við samninga. Hefur þú kannað það? Ekki hika við að hafa samband við félagið ef eitthvað kemur upp á eða ef einhver óvissa er til staðar. Þá munum við skoða málið með þér og hafið í huga að öll mál sem koma til félagsins eru trúnaðarmál. Félagsmaður þarf alltaf að veita samþykki sitt til að mál fari áfram í ferli ef þörf krefur.“
Nánar hér á vef Einingar-Iðju.