Fara í efni
Fréttir

Ein með öllu og meira til hjá Dóra K

Verslunarmannahelgin í ár var að mörgu leyti óvenjuleg hjá Dóra K, eins af skipuleggjendum hátíðarinnar Einnar með öllu. Hér er Dóri á sviðinu á Sparitónleikunum en hann tók óvænt lagið með Saint Pete. Mynd: Hilmar Friðjónsson

Hátíðin Ein með öllu tókst frábærlega í ár að mati Halldórs Kristins Harðarsonar, eins af skipuleggjendum hátíðarinnar. Allt gekk upp, meira að segja flýtti frumburður Halldórs sér í heiminn 10 dögum fyrir áætlun svo hann gæti einbeitt sér að dagskránni.

Allt gekk upp

Halldór, eða Dóri K, eins og hann er betur þekktur, er þaulvanur þegar viðburðarhald er annars vegar en hann segist samt ekkert hafa haft með það að gera að dóttir hans kom í heiminn viku fyrir áætlaðan tíma. Tímasetningin var samt fullkomin því áætlaður fæðingardagur var frídagur verslunarmanna. Ef unga daman hefði ekki flýtt sér í heiminn hefði það því allt eins getað farið svo að Dóri hefði lítið getað sinnt sínu hlutverki og verið upp á fæðingadeild á Sparitónleikunum.

„Um helgina er ég búinn að hoppa á milli viðburða og bleyjuskipta,“ segir Dóri ánægður eftir vel heppnaða helgi sem hann segir að hafi tekist frábærlega. „Að færa Mömmur og möffins niður á Ráðhústorg var góð ákvörðun og við höfum ákveðið að viðburðurinn verði þar í framtíðinni. Gleðin ríkti svolítið mikið í miðbænum í ár og það var almenn ánægja með þétta dagskrá þar. Ég myndi segja að hátíðin sé orðin alveg eins og við viljum að hún sé. Það var mikið af fjölskyldufólki í bænum og gekk vel á öllum vígstöðvum,“ segir Dóri.

Dóttir Dóra K átti að koma í heiminn á frídegi verslunarmanna en dreif sig í heiminn 10 dögum fyrir áætlun og gat því Dóri K sinnt dagskrá hátíðarinnar á milli bleyjuskipta. Mynd: Úr einkasafni

Gott veður á Sparitónleikunum

Veðrið var hátíðinni líka afar hliðhollt því í dag brast á með heljarinnar rigningu en hátíðardagarnir voru þurrir og sólin lét líka sjá sig. Veðrið á sparitónleikunum var sérlega gott og kvöldhiminninn fagur. „Það er eins og veðurspáin sé aldrei neitt geggjuð fyrir verslunarmannahelgina en einhvern veginn heppnast veðrið alltaf frábærlega,“ segir Dóri. Hátíðin í ár var öðruvísi fyrir Dóra að því leyti að hann var ekki aðeins að hoppa heim í bleyjuskipti heldur hoppaði hann líka upp á sviðið á Sparitónleikunum og tók eitt lag. „Ég er tónlistarmaður en hef lítið sinnt tónlistinni undanfarið vegna alls konar annarra verkefna. Ég gerði samt nýlega eitt lag með Saint Pete, uppeldissyni mínum í rappinu á Akureyri, eins og ég vel að kalla hann, og ég vissi nú bara með 20 mínútna fyrirvara að ég væri að fara á svið með strákunum. Þeir sögðu að þeir væru að fara að taka þetta lag og ég bara hoppaði úr gæsluvestinu og fór í rapparagallann í smástund,“ segir Dóri og viðurkennir að hann hafi haft gaman af. „Það er alltaf gaman að spila fyrir framan fulla Samkomuflöt og Norðlendinga. Það er eiginlega toppurinn að fá að spila fyrir framan allan bæinn sinn.“

Það var í nógu að snúast hjá Dóra K um helgina. Hér er hann við gæslu á Sparitónleikunum. 

Gylltur kvöldhiminn á Sparitónleikunum. Dóri K og Saint Pete á sviðinu.