„Ein fljótvirkasta byggðaaðgerðin“
Viðbygging við flugstöðina á Akureyrarflugvelli, sem taka á í notkun eftir tæp tvö ár, vorið 2023, verður 1.100 fermetrar. Fyrsta skóflustungan var tekin í gær, eins og Akureyri.net greindi frá, og verktakar hefjast nú handa við að undirbúa byggingarreitinn.
Í viðbyggingunni verða fríhöfn, veitingastaður og aðstaða fyrir toll og lögreglu. Verklok eru áætluð í lok árs 2022 og í kjölfarið verður ráðist í endurbætur á eldri hluta hússins. Heildarstærð flugstöðvarinnar verða þá 2700 fermetrar.
Hönnun byggingarinnar var boðin út í fyrrasumar og urðu Mannvit og Arkís hlutskarpastar og hafa síðan þá unnið að hönnun og útfærslu. Áætlað er að byggingaframkvæmdir hefjist í haust þegar byggingarreiturinn er tilbúinn og útboðsferli er lokið, en útboðsgögn verða auglýst á útboðsvef 28. júní næstkomandi.
Mikilvæg verkefni og arðbær
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem tók fyrstu skóflustunguna, sagði miðað við að hægt verði að afgreiða allt að 220 sæta millilandavél á innan við klukkutíma samhliða 70 sæta innanlandsvél.
Ráðherra sagði stór og mikilvæg skref hafa verið tekin í flugmálum á kjörtímabilinu. Alþingi hafi samþykkt fyrstu flugstefnu Íslands – í rúmlega hundrað ára sögu flugs á Íslandi – en í henni væri m.a. sérstaklega kveðið á um að fjölga fluggáttum inn til landsins til að dreifa ferðafólki um landið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Fjármagn hafi verið tryggt fyrir flugstöðvarbyggingu og flughlað á Akureyri í samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2024. Í þeirri áætlun væri einnig gert ráð fyrir mikilvægum endurbótum á akbraut á Egilsstaðaflugvelli.
Þá hafi nýr aðflugsbúnaður verið settur upp á flugvellinum á Akureyri, sem væri mikilvægur öryggisbúnaður fyrir millilandaflug, og nýverið hafi einnig verið tekið í notkun nákvæmnisaðflug úr norðri með gervihnattaleiðsögu.
Ein fljótvirkasta byggðaaðgerðin
„Þetta eru arðbær verkefni og hafa mikla þýðingu fyrir samfélagið nær og fjær. Áætlað er að við bæði verkefnin á Akureyrarflugvelli verði til um 90 ársverk í hönnunar- og verktakavinnu, þar af um 50 ársverk við flugstöðina. Heildarkostnaður við nýja millilandaflugstöð er metinn á 1,1 milljarð króna en framkvæmdir vegna flughlaðsins 1,6 milljarðar króna,“ sagði Sigurður Ingi.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, sagði í gær að það væri skýrt í huga heimamanna að auknir möguleikar til millilandaflugs um Akureyrarflugvöll væru ein fljótvirkasta byggðaaðgerð sem hægt væri að ráðast í og skipti afar miklu máli, ekki bara fyrir Akureyri og Eyjafjörð heldur landið allt.
„Eitt stykki flugturn“
Guðmundur Baldvin nefndi, í tilefni dagsins, að uppbygging flugvallar á Akureyri ætti sér skemmtilega sögu, sem m.a. væri fjallað um í Sögu Akureyrar, sem Jón Hjaltason skráði.
„Flugvöllurinn hér á óshólmum Eyjafjarðarár var vígður í desember 1954 eftir mikið japl jaml og fuður um fjármögnun verksins en fór ekki á skrið fyrr en bæjaryfirvöld höfðu útvegað fjármagn með ríkisábyrgð og bættu svo um betur og lánuð skurðgröfu og mann til verksins.
Vinna við flugstöð hófst svo í kjölfarið. Verkið gekk seint og lá iðulega við að það stöðvaðist alveg vegna fjárskorsts og hefði bygginging sennilega lítt komist áfram nema með lánalipurð heimamanna, ekki síst Skapta í Slippnum sem lánaði bæði efni og vinnu eins og þurfti. Fræg er svo alltaf sagan hvort sem hún er sönn eða login með uppgjör Skapta við ríkið í verklok 1961 eftir sjö ára framkvæmdatíma; Eitt stykki flugturn: Ein og hálf milljón.“
Smellið hér til að lesa um fyrstu skóflustunguna.
Hér má sjá myndasyrpu frá athöfninni.