Eignir við Eyjafjörð á undir 30 milljónir

Þó fasteignaverð fari hækkandi á Akureyri er enn hægt að finna ódýrt íbúðarhúsnæði í nágrenni bæjarins. Akureyri.net tók saman lista yfir nokkrar eignir, bæði sérbýli og fjölbýli við Eyjafjörð en allar eiga þessar eignir það sameiginlegt að kosta minna en 30 milljónir.
Síðasta sumar tók Akureyri.net saman upplýsingar um ódýrt íbúðarhúsnæði á Akureyri og fann þá nokkrar eignir í bænum til sölu á undir 30 milljónir.
Eins og staðan er í dag er aðeins eitt hús til sölu því verðbili í dag, hús við Þingvallastræti sem þarf að taka alveg í gegn eða rífa. Hins vegar ef fólk er tilbúið að færa sig aðeins lengra út fjörðinn þá má finna nokkrar ódýrar eignir t.d á Ólafsfirði og Siglufirði.
Hér eru dæmi um sex eignir:
Þetta hús er á einni hæð og með þremur svefnherbergjum. Með í kaupunum fylgir innfeldur ísskápur, ný uppþvottavél, þvottavél, þurrkari og nýr infrarauður klefi. Parket og flísar á gólfum. Húsið er kynnt með olíukyndingu og varmadælu.
Um er að ræða lítið bárujárnsklætt timburhús með geymsluskúrs á 259 m² baklóð á Ólafsfirði við Vesturgötu 2.
Húsið er 42,5 m² að stærð en við þessa fermetra bætist svefn- og geymslusloft. Á lóðinni er pallur og heitur pottur. Húsið var mikið endurnýjað fyrir 10-15 árum síðan.
Sæbali er elsta húsið á Ólafsfirði og stendur það við Kirkjuveg 19 á 350 m² lóð. Búið er að gera húsið upp að innan og utan frá A til Ö í samvinnu við Húsfriðunarnefnd ríkissins en húsið er byggt árið 1895. M.a. nýtt þak, nýtt klóak frá húsi, rafmagnsinntak o.s.frv. Húsið er ekki nema 28,7 m² að stærð en er þeim mun meira sjarmerandi.
Hér er um að ræða hæð og ris í tvíbýlishúsi við Laugaveg 5 á Siglufirði. Skráð stærð er 80 m². Stofa og borðstofa eru sérlega rúmgóð með góðu útsýni. Þá er sérþvottahús í íbúðinni. Risið er opið rými.
Þetta hús stendur við Hólaveg 8 á Siglufirði og er 59,2 m² að stærð. Það hefur verið gert upp á fallegan hátt og er með parketi á gólfi og panel á veggjum. Góð bílastæði eru við húsið en trompið er líklega veröndin sem er með háum veggjum og heitum potti. Húsgögn geta fylgt með í kaupunum.
Hér er um að ræða 81,7 m² hús með tveimur svefnherbergjum, byggt árið 1953. Út um eldhúsgluggann er útsýni út á fjörðinn. Þá fylgir geymsluskúr með í garðinum sem getur komið sér vel undir skíðadót o.fl.
- ATHUGIÐ - Upplýsingarnar í greininni eru byggðar á auglýsingum fasteignasalanna á fasteignir.is og fasteignavef Morgunblaðsins. Þegar talað er um ódýrar eignir er verið að horfa á uppsett verð, ekki fermetraverð.