Fara í efni
Fréttir

Eignaumsjón með starfsstöð á Akureyri

Halla Mjöll Stefánsdóttir, ráðgjafi á Akureyrarskrifstofu Eignaumsjónar. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Fyrsta starfsstöð Eignaumsjónar utan Reykjavíkur hefur tekið til starfa á Akureyri. Það er hún Halla Mjöll Stefánsdóttir, ráðgjafi, sem stendur vaktina hérna fyrir norðan. Fyrirtækið hefur umsjón með daglegum rekstri rúmlega 900 fjöleignarhúsa víðs vegar um landið með yfir 20 þúsund fasteignum. „Það eru alltaf að bætast viðskiptavinir í hópinn hérna fyrir norðan, þannig að það er frábært að hafa starfsmann á staðnum,“ segir Halla við Akureyri.net.

„Ég kom fyrst og fremst norður til þess að vera nær fjölskyldunni, en við eignuðumst okkar fyrsta barn fyrir rúmu ári síðan,“ segir Halla. Hún er Skagfirðingur og maðurinn hennar er frá Akureyri. „Svo verð ég að viðurkenna að ég sakna ekki umferðarinnar í Reykjavík, það var bylting að komast hingað og losna við hana. Fyrir utan að veðrið er án efa oftast betra hér.“ Halla var einnig í Háskólanum á Akureyri áður, og kynntist bænum ágætlega þá.

Með stækkandi bæ koma fleiri tækifæri

Hægt er að fullyrða að með ört vaxandi Akureyri, séu fleiri og fleiri fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu sem sjá sér hag í því að opna starfsstöðvar fyrir norðan, eins og tilfellið er með Eignaumsjón. Daníel Árnason, framkvæmdastjóri, greip tækifærið þegar Halla ákvað að flytja norður.

„Með tilkomu starfsstöðvarinnar eigum við nú t.d. mun auðveldara með að hafa bæði umsjón með fundum hús- og rekstrarfélaga á Akureyri og víðar á Norður- og Austurlandi og útvega fundaraðstöðu, jafnframt því sem við getum líka sinnt allri annarri þjónustu við viðskiptavini þar á markvissari og persónulegri hátt,“ segir Daníel.

Dagleg störf í Eignaumsjón

„Við sjáum meðal annars um að boða aðal- og húsfundi og tryggjum að löglega sé staðið að boðun þeirra ,“ segir Halla, aðspurð um dagleg verkefni. „Svo þurfa fundarboðin að vera skýr, varðandi það sem á að ákveða á fundinum. Svo sinni ég almennri ráðgjöf til viðskiptavina okkar, þegar koma upp einhver mál. Það geta verið deilumál eða eitthvað slíkt, það gerist oftar eftir því sem húsfélög verða stærri og íbúar fleiri. Við sjáum einnig um rekstur félaganna, sendum út húsgjöldin, gerum ársreikning, kostnaðaráætlun og annað sem snýr að almennum rekstri“.

„Ef upp koma ágreiningsmál í húsfélögum sem eru í þjónustu hjá okkur, komum við að sem þriðji aðili og veitum hlutlausa ráðgjöf,“ segir Halla. „Við höfum engra hagsmuna að gæta nema að tryggja að rétt sé farið að og lögunum sé fylgt. Í sumum tilfellum þarf að leita til lögfræðings og þá getum við verið húsfélögum innan handar með það líka. Við eigum gott samstarf við lögfræðistofu sem þekkir vel til fjöleignarhúsalaganna og veitir viðskiptavinum okkar hagstæð kjör.“

Halla er í daglegum samskiptum í fjarvinnu við bæði viðskiptavini og samstarfsfólk sitt fyrir sunnan. „Hér fyrir norðan get ég einnig tekið á móti viðskiptavinum og öðrum gestum á skrifstofunni á Glerárgötunni eða skotist á fundi, allt eftir því hvað hentar best,“ segir Halla. „Það eru vissulega viðbrigði að vera ein á starfsstöðinni hér, frá skrifstofunni fyrir sunnan þar sem er oft ansi fjörugt í góðum hópi, en hér fer mjög vel um mig,“ bætir hún við að lokum.

Eignaumsjón á Akureyri er til húsa að Glerárgötu 24, 2. hæð. Frekari upplýsingar um starfsemina má finna á heimasíðunni.