Fara í efni
Fréttir

Eigna- og sjóðastýring Skaga verður í nafni ÍV

Haraldur I. Þórðarson, forstjóri Skaga, og Stefán Héðinn Stefánsson, stjórnarformaður. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þau tímamót urðu í gær að Skagi fékk formlega heimild til þess að eignast Íslensk verðbréf, eignastýringafyrirtæki sem stofnað var á Akureyri 1987 og hefur alla tíða verið með höfuðstöðvar í bænum.

Skagi festi kaup á félaginu í maí með hefðbundnum fyrirvörum eins og Akureyri.net greindi frá á sínum tíma, samkeppnisyfirlitið hafði fyrir töluverðu gefið grænt ljós á kaupin en síðdegis í gær barst tilkynning frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands þess efnis að samykkt hefði verið „að Skagi (Vátryggingafélag Íslands hf.) fari með virkan eignarhlut í Íslenskum verðbréfum hf. og ÍV sjóðum hf. („ÍV“)“ eins og það er orðað á fagmáli.

Skagi er móðurfélag Vátryggingafélags Íslands (VÍS), fjárfestingabankans Fossa og SIV eignastýringar – og Íslensk verðbréf hafa nú sem sagt formlega bæst í hópinn.

Skagi hélt móttöku í Hofi á Akureyri síðdegis í gær þar sem tækifærið var notað og tilkynnt að eigna- og sjóðastýringastarfsemi félagsins yrði til frambúðar í nafni Íslenskra verðbréfa.

Sterkt vörumerki

„Við höfum tekið ákvörðun um að eigna- og sjóðastýringastarfsemi samstæðunnar verði til frambúðar undir nafni Íslenskra verðbréfa enda er það sterkt vörumerki sem við sjáum virði í. Það á sér langa sögu og við sjáum fram á að þetta flotta vörumerki muni styðja við uppbyggingu á samstæðunni til framtíðar,“ sagði Haraldur I. Þórðarson, forstjóri Skaga, við Akureyri.net.

Starfsemi ÍV á Akureyri flyst innan tíðar í húsnæði VÍS við Glerárgötu. „Þar standa nú yfir framkvæmdir; þetta er sérhæfð starfsemi svo það þarf að vera aðskilnaður, en okkur finnst mjög mikilvægt að koma öllum undir sama þak. Það skapar skemmtilega dínamík og vinnustaðurinn verður ansi stór. Skrifstofa VÍS á Glerárgötu er stærsta þjónustuskrifstofa VÍS utan höfuðborgarsvæðisins og það verður gaman að sameina allt starfsfólkið á einum stað,“ sagði Haraldur ennfremur.

Akureyringurinn Stefán Héðinn Stefánsson er stjórnarformaður Skaga. „Markmið okkar að er efla fjármálaþjónustu til viðskiptavina á Norðurlandi almennt, ekki bara tryggingar og eignastýringu, heldur alla fjármálastarfsemi sem er innan samstæðunnar,“ sagði hann í gær.

Eitt dótturfélaga Skaga, SIV eignastýring, hefur hingað til séð um eigna- og sjóðastýringu en hún færist nú undir hatt ÍV. Haraldur sagði í gær að mögulega yrðu einhverjir sérhæfðir sjóðir reknir undir merki SIV. 

Fjölda mynda úr móttökunni í Hofi í gær má sjá hér að neðan.

Fréttir Akureyri.net í maí:

Skagi keypir íslensk verðbréf á 1,6 milljarða

ÍV mikilvægur hlekkur í uppbyggingu Skaga