Fara í efni
Fréttir

Egill Logi Jónasson valinn bæjarlistamaður

Egill Logi Jónasson, bæjarlistamaður Akureyrarbæjar 2025, ásamt mömmu sinni Oddnýju S. Hjálmarsdóttur. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Á Vorkomu Akureyrarbæjar var tilkynnt hver hefði hlotið nafnbótina 'Bæjarlistamaður Akureyrarbæjar' árið 2025. Í ár verður bæjarlistamaðurinn okkar hann Egill Logi Jónasson, sem margir kannast við sem 'Drengurinn fengurinn'. Egill er bæði myndlistarmaður og tónlistarmaður og er hluti af hóp listamanna sem sér um Kaktus. 

„Nú er gaman! Það er gaman þegar gengur vel. Ég vil þakka þeim sem hjálpuðu mér þegar ég var ömurlegur gaur og leið ömurlega,“ sagði Egill Logi þegar hann tók við viðurkenningarskjali og formlega orðinn bæjarlistamaður. „Ég vil þakka mömmu minni og sérstaklega vini mínum og listamanninum Jakobi Sigurðssyni, Kobba. Þakka ykkur hinum líka, en aðallega mömmu og Kobba mínum.“  

Ungur fatahönnuður verður sumarlistamaður bæjarins

Sumarlistamaður Akureyrarbæjar verður Guðmundur Tawan Víðisson, 22 ára gamall Akureyringur fatahönnuður. Merkið hans ber heitið 'Þúsund þakkir', en Guðmundur er útskrifaður af textílbraut VMA og er að fara í fatahönnun í LHÍ næsta haust. Guðmundur notar hefðbundnar íslenskar aðferðir og stundar djúpa rannsóknarvinnu í íslenskan menningararf í hönnun sinni, sagði Heimir Örn Árnason, í kynningarræðu sinni um viðurkenningu Guðmundar.  

 

Guðmundur Tawan Víðisson, sumarlistamaður Akureyrarbæjar 2025. Mynd: RH

Mannréttindaviðurkenningar voru tvær í ár, en annars vegar hlaut Adam Ásgeir Óskarsson viðurkenningu fyrir hjálparstarf í þágu ABC skólans í Búrkína Fasó. Akureyri.net birti ítarlegt viðtal fyrr á árinu við Adam, Harald Pálsson og Jóhönnu Sólrúnu Norðfjörð um starfið í Afríku, fyrir áhugasöm. Hin viðurkenningin var veitt til þeirra sem standa fyrir Hinsegin hátíð í Hrísey, Lindu Maríu Ásgeirsdóttur, Ingimars Ragnarssonar, Kristínar Bjarkar og Sigurðs Þorra Gunnarssonar. Viðurkenningin er fyrir að leggja sitt af mörkum til þess að auka sýnileika hinseginsamfélagsins. 

Meira um Vorkomu Akureyrarbæjar, fleiri viðurkenningarhafar og myndir verða birtar á morgun á Akureyri.net.