Fara í efni
Fréttir

„Ég ætla að bjarga þessu mannslífi“

Aðalsteinn Svan Hjelm við skiltið neðst í Oddeyrargötunni þar sem fram kemur að bílar þyngri en 12 tonn megi ekki aka um götuna. Hann segir þá reglu brotna margoft. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Aðalsteinn Svan Hjelm flutti til Akureyrar fyrir áratug, en í Oddeyrargötuna árið 2018. Ekki leið á löngu þar til hann áttaði sig á að öryggi gangandi vegfarenda, íbúanna við götuna og ekki síður annarra sem ekki þekkja aðstæður í götunni, var ábótavant vegna mikillar umferðar og mikils umferðarhraða. Það kom reyndar ekki til af góðu að hann hóf að láta sig þessi mál varða því sonur hans var næstum keyrður niður fyrir utan heimili þeirra.

Aðalsteinn er í fararbroddi íbúa sem hafa stofnað Oddeyrargötusamtökin til að berjast fyrir úrbótum.

Barátta íbúa við Oddeyrargötu fyrir bættu umferðaröryggi er þó alls ekki ný af nálinni. Á forsíðu Dags þriðjudaginn 21. september 1980 – fyrir rúmum 42 árum – var sagt frá mótmælum íbúa vegna umferðarhraða um götuna, eins og sjá má á skjáskoti úr Degi af timarit.is. Þar er meðal annars haft eftir Helgu Frímannsdóttur, þá íbúa við Oddeyrargötuna: „Að sögn umferðarnefndar er ástandið svo slæmt víða í bænum að hún taldi sig ekki í stakk búna að taka fyrir eina götu og gera úrbætur í þá átt að draga úr umferðarhraða.“

Í fréttinni frá 1980 segir að þetta sé gamalt baráttumál. Síðan eru liðin 42 ár og enn berjast íbúarnir – við sömu vindmylluna, liggur við að megi orða það. Sá sem vísað er til í fyrirsögninni er Elías I. Elíasson bæjarfógeti á Akureyri á þessum tíma og formaður umferðarnefndar.

„Það var 50 km hámarkshraði þá,“ segir Aðalsteinn um mótmælin 1980. „Það sem ég hef einmitt verið að benda á að árið 1982 voru rúmlega tíu þúsund bílar á Akureyri og nú eru þeir orðnir vel yfir 20 þúsund. Og bara frá aldamótum þegar þessu var breytt úr 40 í 30 km hámarkshraða hefur bílum fjölgað alveg óhemju og sérstaklega ferðamönnum.“

„Ég er ekki þannig týpa“

Aðalsteinn birti í vikunni pistil á Facebook-síðu sinni þar sem hann fullyrðir að árið 2023 sé árið „þegar Akureyrarbær ákvað loks að taka völdin í sínar hendur í umferðaröryggismálum í miðbæ Akureyrar,“ eins og segir í pistlinum. Þetta ár verði ár aðgerða.

Í spjalli við Akureyri.net segir Aðalsteinn nauðsynlegt að minna endalaust á málið. Hann hefur búið við götuna frá 2018 og segist hafa fengið mjög góð viðbrögð frá því að hann hóf þessa baráttu nýfluttur í götuna. Mögulega er það glöggt gests auga sem blés nýjum krafti í þessa baráttu því Aðalsteinn segir íbúana einfaldlega misþreytta á því að hamra á þessu. Fólk sem hafi kannski búið við götuna í tugi ára sé sumt löngu hætt að nenna að standa í þessu stappi, hafi bara gefist upp, sem sé alveg skiljanlegt þegar ekkert gerist. „En hér er dásamlegt að búa að öðru leyti enda veit ég að íbúar götunnar og hverfisins vilja hvergi annarsstaðar vera,“ segir hann.

„Mér finnst þetta óásættanlegt,“ segir Aðalsteinn um stöðuna í götunni, „og það eru allir þar, en menn eru bara misuppgefnir. Ég er ekki ennþá kominn á það stig að fórna höndum og hreinlega bara flytja. Ég er Sunnlendingur sjálfur, ég gæti bara farið og leyft þá götunni að vera svona áfram næstu áratugi. Ég er ekki þannig týpa. Ég ætla að bjarga þessu mannslífi sem er þarna, einhvers staðar í framtíðinni að hverfa í götunni.“

Þetta leiðir einmitt hugann að því sem virðist alltof algengt í sambandi við öryggismál hvers konar, ekki aðeins í umferðinni. Stundum er hreinlega eins og það sé ekki nóg að almennt séu hlutaðeigandi sammála um að úrbóta sé þörf heldur komi yfir okkur einhver værukærð sem við vöknum ekki af fyrr en eitthvað alvarlegt gerist. Óumflýjanlega verðum við að spyrja: Erum við að bíða eftir því að alvarlegt slys, jafnvel banaslys, verði í Oddeyrargötunni?

Aðalsteinn Svan Hjelm hefur svarað fyrir sig og aðra íbúa: „Ég ætla að bjarga þessu mannslífi.“ Hann hefur líka svarað þessari spurningu fyrir son sinn.

Hliðarspegill slóst í nefið – ekki á 30 km hraða

„Kveikjan að þessu hjá mér persónulega var þegar það var næstum keyrt á son minn fyrir þremur árum,“ segir Aðalsteinn. Sonur hans var þá að ganga út frá heimili þeirra við Oddeyrargötuna, á milli bíla á bílastæðinu – því það er enginn gangstétt þeim megin sem Aðalsteinn og fjölskylda búa. „Ef það eru ekki bílar í bílastæðunum hérna nær húsinu okkar þá eru menn að keyra á 60 km hraða og strjúkast utan í runnann hjá okkur. Á sextíu! Það þarf ekkert að klára þá sögu ef það er lítið barn sem hleypur fyrir horn.“

Sonur Aðalsteins hringdi í hann í áfalli þegar hann var næstum lentur fyrir bíl við heimili þeirra. „Hann bókstaflega sagði að hliðarspegillinn hafi slegist utan í nefið á honum. Og það var bíll sem var ekki á 30.“

Aðalsteinn sendi Akureyri.net myndina hér að ofan af línuriti (Umferðaröryggisáætlun Reykjavíkurborgar 2019-2023, bls. 36). Þar sjá má líkur á alvarlegum meiðslum eða dauðsfalli ef ekið er á gangandi vegfaranda, eftir aldri og árekstrarhraða. Þar er sláandi munur eftir því hvort ekið er á 30 eða 40 km hraða á klukkustund, sem flestum okkar finnst kannski ekki mikill munur, en áttum okkur á því að þarna er 33% munur á hraðanum.

„Það er alveg stjarnfræðilegur munur á manntjóni á milli þess að verða fyrir bíl á 30 og 40. Taktu samt eftir því að meðalhraðinn hérna er að mælast upp undir 40 km, sem þýðir það að ef einhver keyrir á 30 þá er annar að keyra á 50. Meðalhraðinn á að vera 25, hann á ekki að vera 35 eða 40, hann á að vera undir hámarkshraða. Þetta er það sem ég hef bent á, í mælingum eru 80% að aka of hratt,“ segir Aðalsteinn.

Gerist ekkert fyrr en það verður alvarlegt slys?

„Það er akkúrat sem ég er búinn að vera að segja við bæinn,“ svarar Aðalsteinn. Hann bendir á að framkvæmdir séu í raun reaktívar þar sem brugðist sé við eftir á þegar eitthvað er búið að koma fyrir, í stað þess að nota próaktívar aðgerðir sem fyrirbyggja eitthvað sem við vitum að er líklegt að gerist. Aðferðafræðin geri það að verkum að brugðist sé við eftir á með aðgerðum til að auka umferðaröryggi þar sem slys hafa orðið á fólki.

„Við þekkjum þessa umferð hérna og í hvert skipti sem mín börn fara út segi ég: passaðu þig á bílunum. Ég er að segja starfsmönnum frá því niður frá [hjá Akureyrarbæ]. Þetta eru ekki mín börn sem munu verða fyrir bíl. Þetta er kannski ykkar, þetta gæti verið frændi þinn eða bróðir þinn, fólk sem þekkir ekki aðstæður hérna,“ segir hann og bendir á að nú sé vorið fram undan – því sé núna góður tími til að fara af stað með plönin.