Fara í efni
Fréttir

Eftirlegukindur sóttar á Glerárdal

Kindurnar á þotunni sem Sigurður Baldursson dró á vélsleða sínum niður af Glerárdal á fimmtudaginn. Ljósmynd: Sigurður Baldursson

Við eftirleitir efst á Glerárdal í vikunni kom í ljós að ekki höfðu allar kindur á svæðinu fundist í göngum í haust eins og talið var. Fimm voru sóttar langleiðina inn að Lamba á fimmtudaginn og í gær, þegar hópur manna fór aftur um svæðið á sleðum, sáust 17 rolluskjátur til viðbótar þar innfrá! Þær á að reyna að sækja í dag.

„Þetta var töluvert mikið mál, það er aldeilis ekki létt að koma þeim niður eftir,“ segir Sigurður Baldursson, vélsleðamaður og fjallagarpur, við Akureyri.net en hann aðstoðaði bændur við að sækja kindurnar. Dró forláta þotu á eftir sleðanum og flutti kindurnar á henni – rækilega bundnar.

„Ég fór að hjálpa Baldri Garðarssyni, það voru hraustir strákar með okkur og ekki má gleyma hundinum Zorro sem er vel þjálfaður og kann aldeilis að smala og koma með kindurnar til okkar. Strákarnir þurftu að vaða yfir ána til að sækja tvær kindanna og voru rennandi blautir, við veltum sleðunum og festum en þetta gekk upp. En það var sannarlega ekki auðvelt,“ sagði Siggi, sem neitaði ekki að líklega mætti finna einn og einn marblett einhvers staðar eftir strembna, átta tíma ferðina á fimmtudag!

Siggi segir ekkert spaug að keyra þarna inneftir í þessu færi. „Ég skal viðurkenna að ég þurfti að nota alla mína reynslu til að koma þeim niður,“ segir garpurinn sem stundað hefur fjallamennsku allt sitt líf og marga fjöruna sopið.

Mannskapurinn heldur af stað á ný fyrir hádegi í dag og freistar þess að sækja kindurnar sem sáust í gær.